Fótbolti

„Pele Palestínu“ drepinn á Gaza-ströndinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hinn 41 árs gamli Suleiman Al-Obeid var kallaður „Pele Palestínu“ fyrir hæfileika sína inn á fótboltavellinum.
Hinn 41 árs gamli Suleiman Al-Obeid var kallaður „Pele Palestínu“ fyrir hæfileika sína inn á fótboltavellinum. pfa.ps

Frægasti fótboltamaður Palestínumanna var drepinn á miðvikudaginn af hermönnum Ísraelsmanna en þetta kemur fram í tilkynningu frá knattspyrnusambandi Palestínu.

Hinn 41 árs gamli Suleiman Al-Obeid var kallaður „Pele Palestínu“ fyrir hæfileika sína inn á fótboltavellinum.

Samkvæmt yfirlýsingu frá knattspyrnusambandi Palestínu þá var goðsögnin myrt þegar hann var að bíða eftir hjálpargögnum í suður Gaza. Hann var skotinn til bana af ísraelsku hermönnunum.

Al-Obeid skoraði yfir hundrað mörk á ferli sínum og var ein stærsta fótboltastjarna þjóðarinnar.

Hann náði að spila nítján landsleiki fyrir Palestínu og skora tvö mörk. Síðasta landsleikinn spilaði hann árið 2013.

Al-Obeid lék lengst með félaginu Khadamat Al-Shati á Gaza-ströndinni. Hann lék síðast með liðinu árið 2023.

Suleiman Al-Obeid lætur eftir sig konu og fimm börn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×