Handbolti

Andri einn og yfirgefinn: „Held ég hafi sloppið“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Andri Már Rúnarsson naut sín vel í fyrsta leiknum á EM.
Andri Már Rúnarsson naut sín vel í fyrsta leiknum á EM. Vísir/Sigurður Már

„Það var algjör gæsahúð að fá að upplifa þetta. Þjóðsöngurinn og þessi stemning og orka frá stúkunni sem maður fékk. Þetta var einstakt og ég er klár í meira,“ segir Andri Már Rúnarsson sem þreytti frumraun sína á EM í sigri Íslands á Ítalíu í fyrradag. Hann er klár í meira gegn Pólverjum í dag.

Andri Már fékk tækifæri undir lok leiks eftir að hafa setið á bekknum lungann úr leiknum. Biðin var erfið á köflum.

Klippa: Daglegur lærdómur

„Auðvitað er fiðringur og spenningur í þessu. Þegar maður fékk tækifærið er bara að láta vaða. Það var gaman að ná fyrsta markinu, það var skemmtileg stund og góð tilfinning,“ segir Andri Már sem tókst að setja eina neglu fyrir utan í öruggum sigrinum.

Herbergisfélaginn í einangrun

Einn leikmaður var fjarverandi í leiknum við Ítali en Einar Þorsteinn Ólafsson, sem er herbergisfélagi Andra Más, varð hundlasinn í aðdraganda leiksins við Ítali. Þá þurfti að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir smit í hópnum.

„Ég veit ekki alveg hvernig staðan er á honum en ég veit að hann var veikur þarna. Hann fór í annað sér herbergi til að smita ekki frá sér. Ég vona að hann nái sér sem fyrst og geti hjálpað okkur,“ segir Andri sem er einkennalaus.

„Ekki hingað til. Ég held ég hafi sloppið vel frá þessu. Við sjáum til en mér líður vel núna.“

Situr þú þá einn eftir, herbergisfélagalaus?

„Já. Ég geri það besta úr því en við erum með gott fundarherbergi þar sem allir hittast og horfa á leiki og svona. Maður finnur alltaf eitthvað að gera. Þetta er mjög skemmtilegur hópur og þetta er mjög gaman,“ segir Andri Már sem nýtur sín vel innan um bestu leikmenn landsins dagsdaglega.

„Maður lærir heilmikið hvern einasta dag. Maður fær að kynnast strákunum og starfsteyminu betur á hverjum degi. Það er tekið vel á móti mér og ég get ekki kvartað,“ segir Andri.

Búast megi þá við töuvert frábrugðnu verkefni frá ítalska liðinu gegn Pólverjum í dag. 

„Þetta er öðruvísi lið en Ítalar. Þeir eru stærri og sterkari og spila öðruvísi handbolta. Við þurfum bara að kortleggja þá og spila okkar leik. Ef við spilum vel og erum hundrað prósent einbeittir mun þetta ganga vel,“ segir Andri Már.

Viðtalið má sjá í spilaranum.

Leikur Íslands við Pólland hefst klukkan 17:00 og verður lýst beint hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×