Viðskipti erlent

Kynntu nýja út­gáfu ChatGPT: „Þetta er eins og að tala við sér­fræðing“

Samúel Karl Ólason skrifar
Sam Altman, forstjóri OpenAI.
Sam Altman, forstjóri OpenAI. AP/Jose Luis Magana

Forsvarsmenn OpenAI opinberuðu í gær nýja útgáfu mállíkansins ChatGPT. Þessu nýja líkani, sem ber titilinn GPT-5, er ætlað að leysa af hólmi GPT-4 sem kom út fyrir rúmum tveimur árum. Útgáfan er talin geta varpað ljósi á það hvort mállíkön sem þessi muni halda áfram að þróast hratt eða hvort þau hafi þegar náð toppinum, ef svo má segja.

Væntingarnar til GPT-5 eru gífurlega miklar. Forsvarsmenn OpenAI hafa talað um, eins og bent er á í grein AP fréttaveitunnar, að þróunarvinnu fyrirtækisins sé ætlað að þróa almenna gervigreind. Það er tækni sem gæti gerbreytt heiminum.

Þá hafa forsvarsmenn fyrirtækisins unnið hörðum höndum að því að safna fúlgum fjár, sem fara að miklu leyti í dýrar tölvuflögur og gagnaver sem þarf til að keyra tæknina sem ChatGPT keyrir á.

Sam Altman, forstjóri OpenAI, segir að GPT-5 marki stórt skref í átt að almennri gervigreind en því sé að mestu ætlað að bæta þjónustuna við þá sjö hundruð milljónir manna sem noti mállíkanið í viku hverri, samkvæmt Altman.

Sjá einnig: Hætta við að reka OpenAI í hagnaðarskyni

Greiningafyrirtækið JPMorgan Chase gaf í júlí út skýrslu þar sem áætlað var að um átta hundruð milljónir manna notuðu ChatGPT. Það samsvarar um tíu prósent allra jarðarbúa.

„Þetta er eins og að tala við sérfræðing, á prófessora-stigi í öllu, á hvaða sviði sem þú þarfnast, þegar þú þarfnast þess,“ sagði Altman á viðburði til að marka nýjustu útgáfuna í gær, sem sjá má hér að neðan.

Prófessor sem ræddi við AP sagði uppfærslunni fylgja töluverðar tæknilegar viðbætur en GPT-5 væri góður grunnur að frekari framþróun á komandi árum.

Varnirnar svo gott sem engar

Kynning OpenAI í gær snerist að hluta til einnig um nýjar öryggisráðstafanir. Þeim er ætlað að draga úr ósannindum frá ChatGPT og að stöðva mállíkanið í að mynda skaðleg svör við fyrirspurnum notenda.

Rannsókn sem birt var á dögunum gaf til kynna að mállíkan OpenAI gæti reynst táningum gífurlega skaðlegt. ChatGPT útskýrði meðal annars fyrir þrettán ára krökkum hvernig þeir ættu að verða ölvaðir, hvernig þeir gætu falið átröskun eða jafnvel hjálpað þeim að semja sjálfsvígsbréf.

Rannsakendur sem þóttust vera táningar í viðkvæmri stöðu eða vanda áttu í miklum samskiptum við mállíkanið vegna rannsóknarinnar. Í flestum tilfellum varaði ChatGPT við hættu en útvegaði svo ítarlegar leiðbeiningar um hvernig hinir meintu táningar gætu neytt fíkniefna, svelt sig eða skaðað sig.

Í samtali við AP sagði einn forsvarsmanna rannsóknarinnar að markmiðið hefði verið að kanna varnir OpenAI en fljótt hafi komið í ljós að þær væru svo gott sem engar. Þegar mállíkanið neitaði að svara spurningum um málefni sem gætu verið skaðleg var auðvelt fyrir rannsakendur að komast hjá því með því að segja að þeir væru að spyrja vegna verkefnis eða fyrir vin.

Rannsóknir benda til þess að fjölmargir táningar í Bandaríkjunum spjalla við ChatGPT sem vin og stór hluti þeirra notar þjónustu spjallþjarka sem eiga að vera vinir þeirra.

Sjá einnig: Segir spjallþjarka bera á­byrgð á sjálfs­vígi sonar hennar

Altman gekkst við því í síðasta mánuði, lýsti þessari notkun sem algengri meðal ungs fólks og sagði hana til rannsóknar.

„Fólk reiðir sig í of miklum mæli of mikið á ChatGPT,“ sagði Altman.

„Það er til ungt fólk sem segir: „Ég get ekki tekið nokkra ákvörðun í lífinu án þess að segja ChatGPT frá öllu sem gengur á. Það þekkir mig. Það þekkir vini mína. Ég mun gera allt sem það segir“.“

Þetta sagði Altman að honum þætti virkilega slæm þróun og verið væri að skoða hvernig hægt væri að bregðast við henni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×