Sport

Tveir látnir eftir sama hnefaleikakvöld í Tókýó

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Japönsku hnefaleikakapparnir Hiromasa Urakawa og Shigetoshi Kotari voru báir 28 ára gamlir en ekki tókst að bjarga lífi þeirra í neyðaraðgerð á heila.
Japönsku hnefaleikakapparnir Hiromasa Urakawa og Shigetoshi Kotari voru báir 28 ára gamlir en ekki tókst að bjarga lífi þeirra í neyðaraðgerð á heila. @WorldBoxingOrg

Vísir sagði frá því í gær að japanskur hnefaleikakappi hefði látist vegna höfuðmeiðsla sinna í boxbardaga fyrir tæpri viku síðan. Nú hefur annar hnefaleikakappi fallið frá og hann tók líka þátt í þessari sömu keppni þetta afdrifaríka kvöld.

Hinn 28 ára gamli Hiromasa Urakawa lést í gær en hann tapaði bardaga sínum eftir rothögg frá Yoji Saito í áttundu lotu.

Shigetoshi Kotari lést á föstudaginn en hann varð fyrir sínum höfuðmeiðslum í öðrum bardaga á sama kvöldi í Korakuen höllinni í Tókýó 2. ágúst síðastliðinn. BBC segir frá.

Báðir mennirnir þurftu að fara í neyðaraðgerð á heila. Þær skiluðu því miður ekki tilætluðum árangri því hnefaleikakappnir eru nú báðir látnir. Í aðgerðunum var reynt að fjarlægja blóð sem hafði safnast á milli heilans og höfuðkúpunnar.

Urakawa er jafnframt þriðji hnefaleikamaðurinn sem lést á þessu ári en Írinn John Cooney lést í febrúar eftir hnefaleikabardaga í Belfast. Allir þessir þrír hnefaleikakappar áttu það sameiginlegt að vera 28 ára gamlir.

Alþjóða hnefaleikasambandið, WBO sendi frá sér stutta yfirlýsingu.

„WBA syrgir fráfall japanska hnefaleikamannsins Hiromasa Urakawa, sem lést vegna meiðsla sem hann varð fyrir í bardaga sínum við Yoji Saito. Þessar hræðilegu og sorglegu fréttir koma aðeins degi eftir að við fréttum af andláti Shigetoshi Kotari, sem fékk sín meiðsli þetta sama kvöld,“ sagði í yfirlýsingunni frá WBA.

„Við sendum okkar dýpstu samúðarkveðjur til fjölskyldna þeirra, vina og japanska hnefaleikasambandsins alls á þessum hriklega erfiðu tímum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×