Neytendur

Bret­land aftur inn í Reiki í Evrópu hjá Sýn og Símanum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Íslendingar sem ferðast til Bretlands eiga nú kost á því að greiða sama gjald fyrir farsímaþjónustu þar eins og þeir gera heima fyrir.
Íslendingar sem ferðast til Bretlands eiga nú kost á því að greiða sama gjald fyrir farsímaþjónustu þar eins og þeir gera heima fyrir. Getty/LightRocket/SOPA/Dinendra Haria

Fjarskiptafyrirtækin Sýn og Síminn hafa bætt Bretlandi aftur inn í svokallaða Reiki í Evrópu þjónustu, þar sem íbúar innan ESB og EES greiða sama gjald fyrir farsímanotkun í Evrópu og þeir greiða heima fyrir.

Bretland datt úr þjónustunni þegar Bretar gengu úr Evrópusambandinu.

Innviðaráðuneytið hefur boðað reglugerð til að koma í veg fyrir „óhóflegt gjald“ fyrir farnetsþjónustu yfir landamæri Bretlands og Norður-Írlands. 

Í athugasemdum í samráðsgátt segir meðal annars að í XX. viðauka við Fríverslunarsamning milli Íslands, Liectensteins, Noregs og Bretlands, sem tók gildi þann 1. júlí 2023, sé að finna ákvæði um að ferðamenn sem fara milli landanna þurfi ekki að borga himin há símagjöld við það eitt að fara yfir landamæri Bretlands.

„Samningurinn átti að tryggja þetta. Það hefur hann ekki gert í raun. Aðeins eitt lítið símafyrirtæki hefur nýtt sér þessa sérstöðu á markaðinum en það félag hefur mjög litla markaðshlutdeild. Með reglugerð þessari er lagt til að tryggt verði að símafyrirtækin fari eftir samningi þessum,“ segir í samráðsgáttinni.

Neytendasamtökin hafa fagnað boðaðri reglugerð, „enda bæði til þæginda og hagsbóta fyrir almenna notendur“. 

Vísir er í eigu Sýnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×