Neytendur

Borið á kvörtunum undan leigubílstjórum

Agnar Már Másson skrifar
„Við höfum heyrt af misbrestum hvað varðar gjaldtöku,“ segir Helga Árnadóttir framkvæmdastjóri. Á skiltinu við Bláa Lónið er útlistað verð sem má teljast venjulegt fyrir leigubílaferðir. 
„Við höfum heyrt af misbrestum hvað varðar gjaldtöku,“ segir Helga Árnadóttir framkvæmdastjóri. Á skiltinu við Bláa Lónið er útlistað verð sem má teljast venjulegt fyrir leigubílaferðir.  Samsett Mynd

Borið hefur á því að gestir Bláa lónsins séu rukkaðir hærra en eðlilegt verð af leigubílstjórum að sögn framkvæmdastjóra hjá fyrirtækinu. Lónið hefur því látið reisa upplýsingaskilti á bílastæðinu til að auka gangsæi við gjaldtöku.

Greint var frá því um helgina að búið væri að setja upp skilti við Bláa lónið, einn fjölsóttasta ferðamannastað landsins, þar sem ferðamenn eru varaðir við óprúttnum leigubílstjórum. Á skiltinu stendur meðal annars hvert eðlilegt verð sé fyrir ferð til Reykjavíkur eða út á Keflavíkurflugvöll.

Mikið hefur verið fjallað um ástandið á íslenskum leigubílamarkaði á árinu en meðal annars hafa margar sögur komið upp um að okrað sé á ferðamönnum og þeim jafnvel neitað um far sé túrinn of stuttur. Þá hefur ástandinu í leigubílaröðinni á Keflavíkurflugvelli verið líkt við villta vestrið. 

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu-, markaðs- og vöruþróunarsviðs hjá lóninu, segir að skiltið sé fyrst og síðast til þess að tryggja gagnsæi fyrir viðskiptavini og að þeir eigi að hafa gott aðgengi að hagkvæmri, skilvirkri og öruggri leigubílaþjónustu. 

„Við höfum heyrt af misbrestum hvað varðar gjaldtöku, þó að það hafi ekki verið mikið um það, að minnsta kosti það sem við höfum heyrt,“ segir Helga í samtali við fréttastofu. 

„En númer eitt, tvö og þrjú snýst þetta um að tryggja gott aðgengi að hagkvæmri, skilvirkri og öruggri leigubílaþjónustu fyrir okkar gesti.“

Helga segir að gestir spyrji gjarnan hvað sé eðlilegt verð fyrir leigubíl. „Þetta skilti sem við settum upp tíðkast víða erlendis og er auðvitað fyrst og fremst til að upplýsa okkar gesti og auka öryggi þeirra.“

Búin að breyta skiltinu 

Á skiltinu er fólki bent á skráð leigubílafyrirtæki sem aka leiðina og er sérstaklega bent á Hreyfil og Aðalstöðina. Fréttastofa hefur fengið ábendingar frá leigubílstjórum á öðrum stöðvum sem voru missáttir.

Skiltið á gestabílastæði lónsins.Aðsend

Helga segir að búið sé að breyta skiltinu. Ástæða þess að Hreyfill og Aðalstöðin hafi verið tilgreind þar sé sú að þau hefðu hjálpað lóninu að finna eðlilegt verð til að útlista á töflunni. 

„Við verðleggjum að sjálfsögðu ekki aksturinn sjálf þannig að við töldum mikilvægt að fá fagaðila með til þess að upplýsa um meðalverð á þessum akstursleiðum. Og nú kemur það enn þá betur fram sem sagt hvenær, hversu verð eru fengin og hvaðan þau eru fengin,“ bætir hún við.

Þrjátíu þúsund krónur fyrir skemmtiferð

Nú fara ófáar sögurnar af leigubílstjórum sem rukka umfram það sem má teljast eðlilegt verð, að sögn leigubílstjóra sem fréttastofa hefur rætt við.

Það vakti meðal annars mikla athygli í maí þegar greint var frá skemmtiferð tveggja ástralskra kvenna sem lýstu martraðarkenndri leigubílaferð þar sem bílstjórinn ók með þær upp að skíðasvæðinu í Bláfjöllum, þvert á óskir þeirra, og síðan rukkaði þær tæplega 30 þúsund krónur.

Leigubílstjórum hefur fjölgað verulega frá því að ný lög tóku gildi árið 2023 en fram að því voru fjöldatakmarkanir á því hversu margir gátu fengið leigubílaleyfi hverju sinni.

Í júní voru 813 manns með virkt rekstrarleyfi, sem gildir fimm ár í senn, en um 500 þessara leyfa voru gefin út á síðustu þremur og hálfu ári, samkvæmt gögnum frá Samgöngustofu. Þar af eru 172 leyfishafar skráðir á sína eigin stöð.

Frá lagasetningunni 2023 hafa 6 bílstjórar verið sviptir leyfi sínu, samkvæmt gögnum frá því í júní. Á sama tíma hafði Samgöngustofu borist 107 ábendingar, um helmingur vegna háttsemi leigubifreiðastjóra (t.d. aksturslags, framkomu og gjaldtöku og fleira) og hinn helmingurinn vegna skráningar leigubifreiðar og leyfismála.

Í gagnagrunni lögreglu eru skráð 106 brot á lögum um leigubifreiðaakstur síðustu fimm ár, samkvæmt gögnum frá því í júní. Áttatíu og sjö þeirra brota voru skráð árið 2024, þar af voru sautján sektaðir (lögreglan á höfuðborgarsvæðinu réðst í víðtæka eftirlitsherferð í fyrrasumar ásamt Samgöngustofu og Skattinum).






Fleiri fréttir

Sjá meira


×