Fótbolti

„Tók góðan tíma fyrir mig að geta litið á myndirnar“

Aron Guðmundsson skrifar
Vonbrigðin á EM í Sviss fyrr í sumar voru mikil fyrir íslenska landsliðsins sem ætlaði sér stærri hluti þar. Ingibjörg Sigurðardóttir, landsliðskona, segir það hafa tekið sig góðan tíma að skoða myndir og skilaboð frá mótinu
Vonbrigðin á EM í Sviss fyrr í sumar voru mikil fyrir íslenska landsliðsins sem ætlaði sér stærri hluti þar. Ingibjörg Sigurðardóttir, landsliðskona, segir það hafa tekið sig góðan tíma að skoða myndir og skilaboð frá mótinu Vísir/Anton Brink

Ingi­björg Sigurðar­dóttir, lands­liðs­kona í fót­bolta, segir það hafa tekið sig góðan tíma að líta á myndirnar og skoða skila­boðin sem hún fékk á Evrópumótinu í Sviss eftir von­brigðin sem lands­liðið upp­lifði þar.

Gengi ís­lenska kvenna­lands­liðsins á Evrópumótinu í Sviss fyrr í sumar var undir væntingum. Vonir stóðu til að liðið myndi komast upp úr sínum riðli á mótinu en var langt frá því. Tap í öllum þremur leikjum liðsins í riðla­keppninni var niður­staðan.

Ingi­björg var sem fyrr klettur í vörn ís­lenska liðsins ásamt fyrir­liðanum Glódísi Perlu og segir það hafa tekið langan tíma að jafna sig á því sem gerðist í Sviss.

„En að nokkrum vikum liðnum nær maður líka að átta sig á því að það er margt jákvætt hægt að taka út úr þessu. Þetta er náttúru­lega bara reynsla og reynsla getur verið bæði góð og slæm. Maður getur samt alltaf tekið eitt­hvað út úr þessu og orðið betri. Það tók alveg góðan tíma fyrir mig að geta litið til baka á myndirnar, skoða öll skila­boðin sem maður fékk og endur­upp­lifa þetta mót. Núna þegar að ég lít til baka er ég bara gríðar­lega stolt af liðinu, hvernig við náðum að þjappa okkur saman á þessum stutta tíma sem við vorum þarna og hef trú á því að við komum sterkari út úr þessu.“

Ingibjörg í leik með íslenska landsliðinu á EM Vísir/Getty

Eftir svona von­brigði sé erfitt að bíða eftir næsta lands­liðs­glugga og fá tækifæri til þess að svara fyrir sig en næsta lands­liðs­verk­efni eru tveir mikilvægir um­spils­leikir við Norður-Ír­land um sæti í A-deild Þjóða­deildarinnar.

„Maður vildi eigin­lega að það væri bara lands­leikja­gluggi núna í septem­ber og að maður væri að fara beint í þetta. Á sama tíma er gott að fá góðan tíma núna til þess að koma sér í gang með félagsliðinu, það eru mikilvægar vikur fram­undan og síðan er málið að halda sér í A-deild Þjóða­deildarinnar, það er okkar mark­mið og komast á HM eftir það. Við erum með skýr mark­mið hvað það varðar og þurfum að æfa vel núna, gera okkur klárar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×