Fótbolti

Eze hafi nú þegar náð sam­komu­lagi við Tottenham

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Eberechi Eze gæti verið orðinn leikmaður Tottenham áður en félagsskiptaglugginn lokar.
Eberechi Eze gæti verið orðinn leikmaður Tottenham áður en félagsskiptaglugginn lokar. Charlotte Wilson/Offside/Offside via Getty Images

Félagsskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano segir frá því að Eberechi Eze hafi nú þegar gert samkomulag við Tottenham um að ganga í raðir félagsins.

Eze hefur verið eftirsóttur biti á félagsskiptamarkaðnum undanfarin ár, en hann hefur hingað til haldið sig hjá Crystal Palace þar sem hann hefur leikið frá árinu 2020. 

Hann hefur verið orðaður við erkifjendurna í Tottenham og Arsenal í sumar og nú virðist Eze vera búinn að ákveða að velja Tottenham.

Fabrizio Romano greinir frá því að Eze hafi nú þegar sagt forráðamönnum Palace að hann vilji ganga í raðir Tottenham. Hann segir einnig frá því að Eze sé búinn að samþykkja að ganga í raðir félagsins.

Þó eiga félögin tvö, Tottenham og Crystal Palace, eftir að ná saman áður en félagsskiptin ganga í gegn.

Eze er 27 ára gamall sóknarsinnaður miðjumaður sem hefur leikið 146 leiki í ensku úrvalsdeildinni fyrir Crystal Palace og skorað í þeim 34 mörk. Þá á hann einnig að baki ellefu leiki og eitt mark fyrir enska landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×