Fótbolti

Ó­trú­legt kast Pope vekur at­hygli

Sindri Sverrisson skrifar
Liðsfélagarnir voru að sjálfsögðu hæstánægðir með Nick Pope og stoðsendingu hans.
Liðsfélagarnir voru að sjálfsögðu hæstánægðir með Nick Pope og stoðsendingu hans. Getty/Richard Sellers

Nick Pope, markvörður Newcastle, átti stórkostlega stoðsendingu í 3-0 sigrinum gegn Benfica í Meistaradeild Evrópu í fótbolta í gærkvöld.

Mörkin úr leiknum má sjá hér að neðan en Pope lagði upp mark númer tvö fyrir Harvey Barnes með hreint ótrúlegu kasti, yfir hálfan völlinn eða um sextíu metra.

Á meðan að Nick Woltemade hljóp til að fagna Barnes, sem gerði frábærlega í að klára færið sitt, þá sneru Sven Botman, Malick Thiaw, Dan Burn og Bruno Guimaraes sér að Pope og fögnuðu snilldarkasti hans.

Eddie Howe, stjóri Newcastle, var að sjálfsögðu hæstánægður með sigurinn og ekki síður kastið hans Pope:

„Ég get ekki tekið við neinu hrósi fyrir það! Við erum að vinna í ákveðnum hlutum með Nick varðandi hvernig hann spilar boltanum frá sér og köstin eru mikill styrkleiki hjá honum. Hann er virkilega góður markvörður og sýndi það í þessum leik,“ sagði Howe samkvæmt BBC.

Pope er aðeins annar enski markvörðurinn í sögu Meistaradeildar Evrópu til að ná að leggja upp mark, á eftir Fraser Foster sem lagði upp mark Celtic gegn Barcelona í nóvember 2012.

Aðdáendur voru afar hrifnir af kasti Pope eins og The Sun benti á í grein um kastið.

„Harvey Barnes að sýna sig en Nick Pope á skilið verðlaun fyrir þessa stoðsendingu. Newcastle lætur þetta líta út fyrir að vera auðvelt,“ sagði einn.

„Ég verð að fá að vita hvaðan í fjandanum þessi hæfileiki til að kasta svona kom!“ sagði annar og sá þriðji bætti einfaldlega við: „Stoðsendingin frá Nick Pope er sturluð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×