Enski boltinn

Úlfarnir kaupa hraðasta leik­mann Ítalíu

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Jackson Thatchoua er sprettharður hægri bakvörður.
Jackson Thatchoua er sprettharður hægri bakvörður. X / @WOLVES

Wolverhampton Wanderers hafa gengið frá kaupum á Jackson Thatchoua, hraðasta leikmanni ítölsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili.

Kamerúninn var keyptur á um 12,5 milljónir evra og skrifaði undir fimm ára samning við Úlfana. Hann er 23 ára gamall og getur spilað sem hægri bakvörður eða kantur.

Á síðasta tímabili spilaði hann með Hellas Verona og mældist hraðasti leikmaður ítölsku úrvalsdeildarinnar en að meðaltali spretti hann á 34,88 kílómetra hraða á klukkustund.

Hraðasti sprettur hans var á 36,3 km/klst sem er þó ekki nóg til að verða hraðasti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar. Micky Van de Ven, varnarmaður Tottenham, á þann titil. Hollendingurinn hljóp á 37,38 km/klst hraða á síðasta tímabili.

Thatchoua er fimmti leikmaðurinn sem Úlfarnir fá í sumar. Framherjarnir Jorgen Strand Larsen og Fer Lopez, kantmaðurinn Jhon Arias og varnarmaðurinn David Moller Wolfe komu á undan.

Félagið er enn sagt í leit að miðjumönnum, einum varnarsinnuðum og öðrum framliggjandi, áður en félagaskiptaglugginn lokast þann 1. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×