Upp­gjör og vitöl: Stjarnan-FH 2-2 | FH að missa Blikana frá sér

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Stjarnan - Keflavík Besta Deild Kvenna Sumar 2024
Stjarnan - Keflavík Besta Deild Kvenna Sumar 2024

Stjarnan og FH gerðu 2-2 jafntefli í Bestu deild kvenna í fótbolta í kvöld og gestirnir úr Hafnarfirðinum töpuðu tveimur dýrmætum stigum í toppbaráttunni. Það voru þó Stjörnukonur sem komust tvisvar yfir í leiknum en FH jafnaði í bæði skiptin. Stjarnan vann sér inn mikilvægt stig í fallbaráttunni.

Leikurinn fór hægt af stað og var jafnræði með liðunum framan af. Birna Jóhannsdóttir skoraði fyrsta mark leiksins á 19. mínútu eftir fyrirgjöf Úlfu Dísar Kreye.

Eftir markið áttu gestirnir í basli með að komast í gegnum þétta vörn og miðju heimaliðsins. Stjarnan náði að skapa sér fleiri færi en tókst ekki að bæta við marki. Staðan því 1-0 fyrir heimaliðinu í hálfleik.

Seinni hálfleikur var heldur líflegri og jafnari. FH jafnaði metin á 76. mínútu þegar Arna Eiríksdóttir skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu.

Varamenn beggja liði komu svo af krafti inn í leikinn og kom Snædís María Jörundsdóttir Stjörnunni aftur yfir á 82. mínútu. Þremur mínútum síðar jafnaði Berglind Freyja Hlynsdóttir leikinn aftur. Fleiri urðu mörkin ekki og skiptu liðin því stigunum á milli sín.

FH situr í 2. sæti eftir leikinn með 32 stig, 5 stigum á eftir Breiðablik í 1. sæti. Stjarnan er í 6. sæti með 16. stig, rétt fyrir ofan liðin á fallsætunum.

Atvik leiksins

Seinna jöfnunarmark FH var atvik leiksins hjá mér. Þrátt fyrir að Stjarnan hafi verið mun betri aðilinn meirihluta leiksins. Þá var einhver kraftur í gestunum seinni part seinni hálfleiks og gaf jöfnunarmarkið einhverja von. Von um að annað hvort liðið gæti bætt við öðru marki og þar með tekið öll þrjú stigin í lokin.

Stjörnur og skúrkar

Leikurinn var frekar bragðdaufur. Nánast allir leikmenn FH þreyttir og illa stemmdar í verkefni dagsins. Stelpurnar í Stjörnunni voru vel skipulagðar og þéttar í fyrri hálfleik en náðu ekki að halda þeirri frammistöðu út leikinn.

Gef varamönnum beggja liða með seinni mörkin þennan Stjörnustimpil einungis vegna markanna. Snædís María Jörundsdóttir, leikmaður Stjörnunnar og Berglind Freyja Hlynsdóttir, leikmaður FH.

Stemning og umgjörð

Það er alltaf góð stemning og umgjörð í Garðabænum, annað væri óeðlilegt. Það var talið 227 manns á leiknum sem er fámennt en góðmennt.

Dómarar

Ásmundur Þór Sveinsson var á flautunni, með honum voru Kristófer Bergmann og Elías Baldvinsson á hliðarlínunni. Ásmundur var flottur í dag, spjaldaði þegar það þurfti og leyfði leiknum að flæða þegar það þurfti. Engin stór eða umdeild atvik og dómgæslan til fyrirmyndar.

Jóhannes Karl Sigursteinsson þjálfari Stjörnunnar

Jóhannes Karl: Líktist borðtennis frekar en fótbolta

Stjarnan og FH skildu jöfn að stigum í 14. umferð Bestu deildar kvenna í kvöld. Stjarnan var töluvert betri aðilinn í fyrri hálfleik og átti FH í miklu basli með að brjóta sig í gegnum skipulagða vörn og miðju Stjörnunnar.

„Ég er alveg sáttur með stigið og ég virði það. Ég er ósáttur með að við klárum þetta ekki betur. Jöfnunarmarkið er langur bolti yfir allan völlinn. Við eigum augnablik til þess að vinna hann ofar á vellinum og óheppin að hreinsa hann ekki burtu. Stundum er það bara þannig að þessu litlu atriði falla þarna og við verðum að bíta í það.“ sagði Jóhannes Karl Sigursteinsson, þjálfari Stjörnunnar eftir jafntefli liðsins í kvöld.

„Við unnum virkilega vel í þessum leik, mikil vinna, sköpuðum okkur mikið og skoruðum tvo mörk. Heilt yfir tökum við þetta stig, þó svo að við hefðum viljað fleiri.“

Stjarnan hefur nú þrjú töp, einn sigur og eitt jafntefli í síðustu fimm leikjum, Þrátt fyrir kaflaskipta frammistöðu liðsins í leiknum var Jóhannes Karl, þjálfari Stjörnunnar, sáttur með baráttu liðsins.

„Skipulagið og orkustigið var gott, vorum grimmar að setja pressuna á réttum svæðum. Vorum agaðar í hvar við ætluðum að stíga og hvar ekki. Við vildum vera með fáar snertingar á boltann og mikið af hlaupum. En eins og vill verða þegar þú spilar á móti FH, þá er æsingurinn mikill. Þá koma kaflar í leiknum sem líktust borðtennis frekar en fótbolta.“

Fyrirliðinn Arna Eiríksdóttir skoraði fyrir FH í kvöldþvísir / guðmundur

Arna Eiríksdóttir:Við töpuðum tveimur stigum í dag

FH og Stjarnan skildu jöfn í 14. umferð Bestu deildar kvenna í dag. FH átti í erfiðleikum að brjóta niður skipulagða vörn og miðju Stjörnunnar. Með innkomu varamanna náðu gestirnir að snúa við gangi leiksins og tryggja sér eitt stig úr leiknum.

„Ég er ekki sátt með frammistöðuna í dag og ég held að enginn í liðinu sé það. Við horfum á þetta þannig að við töpuðum tveimur stigum í dag. Þessi frammistaða var ekki nógu góð,“ sagði Arna.

FH spilaði 120 mínútur þegar liðið tapaði gegn Breiðablik á laugardaginn síðastliðinn í úrslitum Mjólkurbikarsins. Það voru þreytumerki hjá flestum í FH liðinu, sem náðu samt mikilvægi stigi úr leiknum.

„Við vorum klárlega þreyttar, margir leikmenn sem hafa spilað fjóra leiki á tólf dögum. Þetta hefur verið svakaleg keyrsla og við höfum haldið nánast sama byrjunarliði í þeim öllum. Þessar stelpur sem hafa tekið þátt í nánast öllum leikjunum, 90 mínútur eða 120 mínútur eru augljóslega þreyttar. Það munaði alveg um það í dag,“ sagði Arna.

Það færðist líf og kraftur í leikinn eftir að bæði lið gerðu skiptingar í seinni hálfleik. Varamenn beggja liða sáu til þess að liðin myndu skipta stigunum á milli sín.

„Ég er stolt af þessu liði á hverjum degi, það er frábært að fá inn þessar ungu stelpur. Tvær stelpur í dag sem hefur sést lítið af í sumar. Frábært að fá Önnu Heiðu Óskarsdóttir í vörnina, það er stelpa sem á eftir að blómstra og þið munuð sjá meira af,“ sagði Arna.

Guðni Eiríksson er þjálfari FH.vísir/Hulda Margrét

Guðni Eiríksson: Þegar bæði lið skora jafn mörg mörk, þá er 1 stig í boði

Stjarnan og FH gerðu jafntefli í Garðabæ í 14. umferð Bestu deildar kvenna í kvöld. Bæði lið fengu eitt stig út úr leiknum, stig sem er mikilvægt fyrir bæði lið sitthvoru megin í töflunni.

„Þetta var döpur spilamennska í fyrri hálfleik og margt sem vantaði upp á í dag. Það var ágætt að snúa þessu aðeins við í seinni hálfleik. Jafntefli í dag og við verðum að taka því.“ sagði Guðni Eiríksson, þjálfari FH, svekktur eftir leik liðsins í dag.

FH tapaði úrslitaleik Mjólkurbikarsins gegn Breiðablik fyrir fimm dögum síðan og margir leikmenn liðsins í dag sem spiluðu nær 120 mínútur í þeim leik. Leikmenn FH í dag, virtust illa stemmdar fyrir verkefni dagsins.

„Það var þreyta í leikmönnum FH, 4 leikir á 12 dögum, framlenging í síðasta leik, það sýndi sig í dag að leikmenn eru þreyttur og lúnir.“

„Ég er stoltur af leikmönnum liðsins og ég er hrikalega stoltur af þessu liði. Það sást að það var lítið eftir af tanknum hjá þeim leikmönnum sem hefur verið álag á. Þessir leikmenn sem komu út af voru búnar á því og það voru fleiri leikmenn eftir inn á vellinum sem voru búnar á því. Þær héldu samt áfram og lærdómur leiksins er að þegar bæði lið skora jafn mörg mörk, þá er 1 stig í boði.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira