Íslenski boltinn

Fanndís hefur ekkert heyrt frá Val og í­hugar að hætta

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Fanndís á ferðinni í leik með Val gegn Breiðablik í fyrrasumar. Samningur hennar við félagið er útrunninn.
Fanndís á ferðinni í leik með Val gegn Breiðablik í fyrrasumar. Samningur hennar við félagið er útrunninn. vísir / ernir

Fanndís Friðriksdóttir gæti lagt skóna á hilluna. Hún er samningslaus sem stendur og hefur ekkert heyrt frá stjórnarfólki Vals eftir að tímabilinu lauk.

Fanndís spilaði alla 23 deildarleikina í sumar og skoraði 8 mörk. Hún var næstmarkahæst hjá Valsliðinu sem átti sitt versta tímabil í áraraðir og endaði í 6. sæti Bestu deildarinnar.

Í samtali við Vísi sagði Fanndís að samningur hennar hafi runnið út eftir tímabilið og hún hafi ekkert heyrt frá félaginu síðan, eða í rúmar tvær vikur.

Valur hefur boðað breytingar að undanförnu og kynnt nýja stefnu, sem felst helst í því að efla grasrótarstarfið og gefa yngri leikmönnum tækifæri.

„Ég er orðin 35 ára þannig að ég passa kannski ekki inn í stefnuna“ sagði Fanndís í samtali við Vísi.

Fanndís hefur ekki tekið endanlega ákvörðun um framhaldið en íhugar að hætta í fótbolta.

„Nú er ég bara á leiðinni í frí og ætla ekkert að hugsa um fótbolta á meðan en ég hef alveg hugsað um að kalla þetta gott.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×