Enski boltinn

Sjáðu mörkin hjá sex yngstu marka­skorum í sögu Liver­pool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rio Ngumoha sló í vikunni meira en 28 ára gamalt met Michael Owen og það aðeins nokkrum dögum fyrir sautján ára afmælið sitt.
Rio Ngumoha sló í vikunni meira en 28 ára gamalt met Michael Owen og það aðeins nokkrum dögum fyrir sautján ára afmælið sitt. EPA/ROBIN PARKER/ADAM VAUGHAN

Rio Ngumoha varð í síðustu viku yngsti leikmaður Liverpool til að skora í ensku úrvalsdeildinni. Hann sló líka metið yfir þann yngsta til skora fyrir félagið í öllum keppnum.

Liverpool hélt upp á metið hjá þessum sextán ára strák með því að sýna mörkin hjá þeim sex yngstu sen hafa skorað fyrir Liverpool í ensku úrvalsdeildinni.

Enska úrvalsdeildin var stofnuð 1992 og Liverpool hefur verið með öll árin.

Rio Ngumoha bætti met Michael Owen með sigurmarki sínu á móti Newcastle. Þetta var einnig síðasta markið sem Ngumoha skorar fyrir sautján ára afmælið sitt sem var i gær.

Rio var 16 ára, 11 mánaða og 27 daga þegar hann skoraði þetta mikilvæga mark sem tryggði Liverpool 3-2 sigur á tíundu mínútu í uppbótatíma.

Owen var þá búinn að eiga Liverpool metið síðan í maí 1997 eða í næstum því þrjá áratugi.

Owen var 17 ára, 4 mánaða og 22 daga þegar hann skoraði fyrir Liverpool á móti Wimbledon á Selhurst Park. Sá leikur tapaðist 2-1 en Owen minnkaði muninn eftir að hafa komið inn á sem varamaður sautján mínútum fyrr.

Owen var þá að slá met Robbie Fowler sem skoraði sitt fyrsta mark fyir Liverpool í október 1993 þá aðeins 18 ára, 6 mánaða og 7 daga. Fowler átti metið í þrjú og hálft ár.

Síðan Owen sló metið hafa þrír bæst við á topp sex listann, fyrst Jamie Carragher og á seinni árum Raheem Sterling og Stefan Bajcetic. Sterling var í öðru sætinu en er nú orðinn þriðji á listanum.

Hér má sjá þessi sex mörk hjá sex yngstu markaskorum Liverpool i sögu ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×