Enski boltinn

Fyrsta mark Mateta í langan tíma dugði ekki Palace til að taka öll stigin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tom Cairney fagnaði jöfnunarmarki sínu fyrir Fulham með því að rífa sig úr treyjunni.
Tom Cairney fagnaði jöfnunarmarki sínu fyrir Fulham með því að rífa sig úr treyjunni. Getty/Mike Hewitt

Crystal Palace og Fulham byrjuðu nýtt ár með að gera 1-1 jafntefli í hörku Lundúnaslag í ensku úrvalsdeildinni á Selhurst Park í dag.

Fyrsta mark leiksins og fyrsta mark ársins 2026 í deildinni skoraði Frakkinn Jean-Philippe Mateta. Það dugði þó ekki til sigurs. Tom Cairney jafnaði metin fyrir gestina tíu mínútum fyrir leikslok.

Crystal Palace náði ekki að vinna leikinn en tókst að minnsta kosti að enda þriggja taphrinu sína.

Fulham var á móti búið að vinna þrjá leiki í röð og slíta sig aðeins frá fallbaráttunni en sigurganga þeirra endaði í dag.

Mateta kom Crystal Palace í 1-0 með marki á 39. mínútu. Mateta skallaði þá boltann í markið eftir frábæra fyrirgjöf frá Nathaniel Clyne.

Frakkinn hafði ekki skorað mark í síðustu átta leikjum sínum en þetta var samt hans tíunda mark á tímabilinu.

Jöfnunarmarkið var mjög lagleg afgreiðsla hjá Tom Cairney. Boltinn féll fyrir Cairney á vítateigslínunni og hann skrúfaði hann glæsilega í hornið. Dean Henderson gat ekkert gert við þessu skoti.

Cairney reif sig úr treyjunni og hljóp til stuðningsmanna gestaliðsins til að fagna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×