Íslenski boltinn

Þróttur á toppinn eftir endurkomusigur en Njarð­vík vann líka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þróttarar hafa verið á mikilli siglingu.
Þróttarar hafa verið á mikilli siglingu. vísir/Viktor

Þróttur og Njarðvík komust bæði upp fyrir topplið Þórs eftir sigra í leikjum sínum í Lengjudeild karla í fótbolta í kvöld.

Þróttarar lentu undir á móti Fjölni en tryggðu sér 2-1 sigur með mörkum frá Liam Daða Jeffs og Hlyns Þórhallssonar.

Þetta var fjórði sigur Þróttara í röð og liðið ætlar ekki að gefa neitt eftir í baráttunni um sæti Bestu deildinni.

Þróttur er nú með einu stigi meira en NJarðvík og tveimur stigum meira en Þór sem á leik inni.

Oumar Diouck var maðurinn á bak við sigur Njarðvíkinga en Diouck skoraði tvö mörk í 3-1 heimasigri Njarðvíkinga á Leikni R.

Þetta var tólfta og þrettánda mark Diouck í deildinni og hann er nú orðinn markahæstur í deildinni.

Grindvíkingurinn Adam Árni Róbertsson var markahæstur með tólf mörk fyrir þessa umferð.

Valdimar Jóhannsson skoraði þriðja markið áður en Adam Örn Arnarson minnkaði muninn fyrir Leikni.

ÍR vann á sama tima 4-2 sigur á Keflavík í Mjóddinni en þetta var fyrsti sigur Breiðholtsliðsins í fimm leikjum. Voru aðeins búnir að fá tvö stig út úr síðustu fjórum leikjum sínum.

Bergvin Fannar Helgason skoraði tvö mörk fyrir ÍR, Kristján Atli Marteinsson var með eitt og eitt markanna var sjálfsmark.

Stefan Alexander Ljubicic og Eiður Orri Ragnarsson skoruðu mörk Keflvíkinga en liðið er nú í mikilli hættu að missa af úrslitakeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×