Körfubolti

Markkanen skoraði 43 stig á 23 mínútum á EM í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lauri Markkanen var svakalegur í sigri Finna í kvöld.
Lauri Markkanen var svakalegur í sigri Finna í kvöld. EPA/KIMMO BRANDT

Finnska NBA stjarnan Lauri Markkanen átti stórleik í kvöld þegar Finnar fylgdu eftir sigri á Svíum í fyrsta leik með því að vinna stórsigur á Bretum á EM í körfubolta.

Finnland vann leikinn 109-70. Markkanen spilaði bara rétt rúmar 23 mínútur í leiknum en endaði með 43 stig. Hann hitti úr 59 prósent skota sinna og setti niður sjö af þrettán þriggja stiga skotum.

Markkanen er 28 ára gamall og spilar með Utah Jazz í NBA-deildinni. Hann skoraði 28 stig í fyrsta leik Finna.

Næststigahæstur Finna var Sasu Salin sem skoraði 21 stig á 23 mínútum.

Finnar eru með fullt hús eftir tvær umferðir í B-riðli alveg eins og Þýskaland og Litáen sem unnu líka í dag.

Þýskaland vann 105-83 sigur á Svíum þar sem Dennis Schröder var með 23 stig og 7 stoðsendingar á rúmum 25 mínútum. Franz Wagner skoraði 21 stig.

Litáen vann 94-67 sigur á Svartfjallalandi þar sem Rokas Jokubaitis var með 21 stig og 12 stoðsendingar á aðeins tæpum 23 mínútum. Jonas Valanciunas skoraði 19 stig á 13 mínútum.

Tyrkir eru með fullt hús í A-riðli eftir 92-78 sigur á Tékkum sem hafa tapað báðum sinum leikjum. Alperen Sengun var einni stoðseningu frá þrennu en hann skoraði 23 stig, tók 12 fráköst og af 9 stoðsendingar.

Lettar unnu tveggja stiga sigur á nágrönnum sínum í Eistlandi, 72-70, í miklum spennuleik. Þetta var fyrsti sigur Letta en Eistar hafa tapað tveimur fyrstu leikjum sínum. NBA stjarnan Kristaps Porzingis skoraði 26 stig á 27 mínútum.

Serbía vann síðan ellefu stiga sigur á Portúgal, 80-69, í lokaleik kvöldsins. Nikola Jokic var með 23 stig, 10 fráköst og 3 stoðsendingar og Nikola Jovic var með 18 stig.

Serbar eru með fullt hús fullt hús í A-riðli eins og Tyrkir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×