Lífið

Hvar er Donald Trump?

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump hefur lítið sést undanfarna daga en færslur hafa verið birtar á síðu hans á Truth Social.
Donald Trump hefur lítið sést undanfarna daga en færslur hafa verið birtar á síðu hans á Truth Social. AP/Jose Luis Magana

Hávær umræða á sér nú stað á samfélagsmiðlum vestanhafs um það hvar Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sé staddur. Hann hefur lítið sést á undanförnum dögum og er opinbert dagatal hans tómt yfir helgina.

Margir velta vöngum yfir heilsu forsetans og því hvort hann gæti jafnvel verið dáinn. Trump hefur ekki sést opinberlega frá því á þriðjudaginn, þegar hann sat fordæmalausan rúmlega þriggja tíma ríkisstjórnarfund.

Sjá einnig: Með rétt til að „gera hvað sem ég vil“

Vert er að taka fram að ekkert bendir í raun til þess að Trump sé látinn eða ekki við góða heilsu. Umræða þessi á sér að mestu stað á samfélagsmiðlum og stórum hluta hennar er varpað fram í gríni.

Ummæli um heilsu Trumps eru svo sem ekki ný af nálinni og er sérstaklega hægt að vísa til ummæla um marbletti á hendi hans og ummæla um ökkla forsetans. Umræðan þykir þó mun umfangsmeiri en hún hefur verið áður.

Þá hafa ummæli JD Vance, varaforseta, um það hvað hann sé tilbúinn til að taka við embætti af Trump, sem birt voru í gær, ekki hjálpað til við að hægja á umræðunni. Það er þrátt fyrir að Vance hafi ítrekað að Trump, sem er 79 ára gamall, sé við hestaheilsu.

Hvíta húsið hefur ekkert sagt um þessa umræðu hingað til. Það hefur vakið athygli að dagatal Trumps er tómt yfir helgina en vissulega er um fríhelgi að ræða, þar sem verkalýðsdagur Bandaríkjanna er haldinn hátíðlegur á mánudaginn.

Margir hafa einnig bent á eða gantast með það að umræðan sjálf um það hvort Trump sé lífs eða liðinn sé til marks um ákveðna einræðisstemningu í Bandaríkjunum.

Spádómar og vangaveltur um veikindi eða andlát einræðisherra um allan heim er mjög algeng.

Einn hluti umræðunnar snýst um að mikið hafi verið að gera hjá pítsastöðum í Washington DC og nærri Pentagon í gærkvöldi og nótt. Það er vaktað á netinu og þykir til marks um að margir hafi verið að vinna langt fram á kvöld. Einhverjum netverjum þótti þetta sönnun þess að Trump væri látinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.