Fótbolti

Milner næst­elstur og næst­yngstur til að skora í úr­vals­deildinni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Um 23 ár eru á milli fyrsta og síðasta deildarmarks Milners.
Um 23 ár eru á milli fyrsta og síðasta deildarmarks Milners. Mike Hewitt/Getty Images

James Milner varð í dag næstelsti leikmaðurinn í sögunni til að skora í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu er hann skoraði úr vítaspyrnu gegn Manchester City.

Milner skoraði af miklu öryggi af punktinum í 2-1 sigri Brighton gegn Manchester City og varð þar með sá næstelsti í sögunni til að skora í þessari sterkustu deild heims.

Milner var 39 ára og 239 daga gamall þegar hann skoraði þetta fyrra mark Brighton gegn City, nánast sléttu ári yngri en elsti markaskorainn, Teddy Sheringham, sem var 40 ára og 238 daga gamall þegar hann skoraði sitt síðasta mark í ensku úrvalsdeildinni.

Milner er ekki aðeins næstelsti markaskorari ensku úrvalsdeildarinnar frá upphafi, því hann er einnig sá næstyngsti. Hann skoraði nefnilega fyrir Leeds United þegar hann var aðeins 16 ára og 356 daga gamall.

Það eru því um 23 ár frá því að hann skoraði fyrst í ensku úrvalsdeildinni og spurning hvort hann geti bætt met Sheringhams. Það er þó óhætt að segja að mörkin hafi ekki verið að koma á færibandi frá Milner undanfarið því þetta var fyrsta mark hans í deildinni frá því árið 2019. Þá skoraði hann fyrir Liverpool gegn Leicester, fyrir 2075 dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×