Fótbolti

Tárvotur Antony: Rosa­lega erfitt að vera hjá Man United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antony með Real Betis treyjuna þegar hann var kynntur sem nýr leikmaður félagsins. Hann gerði samning til ársins 2030.
Antony með Real Betis treyjuna þegar hann var kynntur sem nýr leikmaður félagsins. Hann gerði samning til ársins 2030. EPA/David Arjona

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Antony brotnaði niður þegar hann var að lýsa tíma sínum hjá Manchester United og sérstaklega þeim dögum þegar hann beið eftir því að gengið væri á sölu hans til Real Betis.

Það kom babb í bátinn á föstudaginn en félögunum tókst að ganga frá kaupunum áður en félagsskiptaglugginn lokaði.

Real Betis borgar 22 milljónir evra fyrir Antony með þrjár milljónir að auki í bónusgreiðslur. United fær síðan helminginn af næstu sölu á leikmanninum.

Aðeins fjölskyldan mín veit það

„Aðeins fjölskyldan mín veit hversu erfitt það var fyrir mig að vera þarna,“ sagði Antony á kynningarfundi sínum sem nýr leikmaður Real Betis.

„Ég þurfti að æfa einn og sér en ég vissi alltaf að það væri von á þessarri stórkostlegu stund. Auðvitað óttaðist ég um að þetta gengi ekki í gegn á lokasprettinum en ég beið af því að ég missti aldrei trúna,“ sagði Antony.

„Það var mjög erfitt að ná þessum félagsskiptum í gegn en hingað erum við komin. Ég get ekki beðið eftir því að klæðast Betis treyjunni aftur. Ég verð að þakka þeim sem gerðu þetta mögulegt fyrir mig,“ sagði Antony.

Seville er miklu fallegri borg

„Þvílíkur munur að vera hér. Seville er miklu fallegri borg en Manchester. Ég er loksins kominn hingað. Ég eyddi meira en fjörutíu dögum á hóteli og það var mjög erfitt. Allir vissu að ég vildi snúa aftur til Betis,“ sagði Antony. 

„Núna er svo margt sem ég vil afreka hér. Ég átti erfitt með svefn eftir alla ástina og væntumþykjuna sem ég fékk frá stuðningsfólki Betis. Það var fólk að bíða við húsið mitt klukkan tvö um nóttina,“ sagði Antony.

„Það er mér mjög mikilvægt að fólk þyki vænt um mig. Það er eitthvað sem peningar geta ekki keypt. Hér hef ég fundið mikla ást og þetta var alltaf mitt fyrsta val. Núna er ég ánægður í borg og í félagi sem ég elska,“ sagði Antony.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×