Skoðun

Hataðu mig af því að ég er í Við­reisn, ekki af því að ég er hommi

Oddgeir Georgsson skrifar

„Það er meiri andúð í garð Miðflokksmanna en transfólks.“

Önnur algeng útgáfa af þessari möntru sem heyrst hefur í gegnum tíðina er

„Það er auðveldara að koma út úr skápnum sem hommi heldur en sem sjálfstæðismaður.“

Til eru margar fleiri sem heyrast við hin ýmsu tilefni. Mér hefur alltaf þótt þessi vörn, eins oft og maður heyrir hana, vera alveg hreint stórfurðuleg. Því er þetta ekki einmitt það sem við viljum? Að fólk sé frekar dæmt fyrir orð þeirra, skoðanir og gjörðir, frekar en af einhverjum óbreytanlegum eiginleikum í fari þeirra?

Ég er virkur í starfi Viðreisnar og fer ekkert leynt með það að ég tel það stjórnmálaafl vera best sett til þess að leiða Ísland. Ég hef líka margar sterkar skoðanir á hinum ýmsu pólitísku málum þar sem ég veit að margir eru mér gríðarlega ósammála.

Ég er líka samkynhneigður maður.

En ef þú ætlar að dæma mig, hvort sem er á jákvæðan eða neikvæðan máta, þá myndi ég ætla að það væri einmitt út af þessum skoðunum mínum, orðum og gjörðum. Ekki út af því hverjum ég er hrifinn af.

Höfundur situr í stjórn Uppreisnar, ungliðahreyfingar Viðreisnar, og vill mun frekar vera dæmdur fyrir það en kynhneigð sína.




Skoðun

Sjá meira


×