Sport

Á­horf­andi sló leik­mann og missti af ó­trú­legri endur­komu

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Lamar Jackson með boltann en Matt Milano bíður spenntur.
Lamar Jackson með boltann en Matt Milano bíður spenntur. Bryan Bennett/Getty Images

Aðdáandi Buffalo Bills lenti í áflogum við DeAndre Hopkins og Lamar Jackson, leikmenn Baltimore Ravens, og var vísað úr stúkunni undir lok fjórða leikhluta í gærkvöldi. Þar með missti hann af hreint ótrúlegri endurkomu Buffalo Bills í fjórða leikhluta, eða varð mögulega valdur að henni.

Lamar Jackson kastaði fyrir snertimarki DeAndre Hopkins þegar rétt rúm mínúta var eftir af þriðja leikhluta, snertimark sem stækkaði forystu Ravens í 34-19.

Þeir Jackson og Hopkins fögnuðu á hliðarlínunni ásamt fleiri leikmönnum Ravens, en aðeins of nálægt stúkunni að mati aðdáanda heimaliðsins, Buffalo Bills.

Aðdáandinn teygði sig yfir girðinguna og sló í hjálm Hopkins, sem Jackson var ósáttur við og svaraði með því að ýta í aðdáandann, sem var síðan vísað úr stúkunni af öryggisvörðum.

Hvort þetta atvik eða eitthvað annað hafi kveikt bál undir liði Buffalo Bills er óvíst, en víst er að liðið sneri leiknum algjörlega við eftir atvikið og vann hreint ótrúlegan endurkomusigur.

Leikstjórnandinn Josh Allen leiddi endurkomu Bills og spilaði stórkostlega undir lokin.

Lukkan var líka með Bills í liði. Derrick Henry hjá Ravens missti boltann þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir, sem gaf Josh Allen tækifæri til að minnka muninn í tvö stig með snertimarki.

Staðan þá orðin 40-38 þegar tæpar tvær mínútur voru eftir. Ravens tókst ekki að skora í næstu sókn og Bills unnu leikinn með sparkmarki Matt Prater, sem fór á sína fyrstu Bills æfingu á fimmtudaginn en stóð uppi sem hetja á sunnudegi.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×