Erlent

Skutu mót­mæ­lendur til bana við þing­húsið í Nepal

Kjartan Kjartansson skrifar
Óeirðarlögreglumenn slógu skjaldbog um þinghúsið í Katmandú í morgun. Skömmu síðar hófu þeir skothríð á mótmælendur sem reyndu að komast inn í húsið.
Óeirðarlögreglumenn slógu skjaldbog um þinghúsið í Katmandú í morgun. Skömmu síðar hófu þeir skothríð á mótmælendur sem reyndu að komast inn í húsið. AP/Niranjan Shrestha

Lögreglumenn drápu að minnsta kosti átta manns og særðu tugi til viðbótar þegar þeir skutu á mótmælendur sem reyndu að ryðjast inn í þinghúsið í Katmandú, höfuðborg Nepals í dag. Tugir þúsunda manna mótmæla banni stjórnvalda við flestum samfélagsmiðlum.

Nepölsk stjórnvöld bönnuðu samfélagsmiðla eins og Facebook, X og Youtube á þeim forsendum að fyrirtækin hefðu ekki skráð sig og gengist undir eftirlit þeirra í síðustu viku. Tugir þúsunda manna þustu út á götu höfuðborgarinnar til þess að mótmæla banninu.

Mótmælin virðist hafa farið úr böndunum þegar hópur fólks ruddi sér leið í gegnum gaddavír og stökktu óeirðarlögreglumönnum á flótta við þinghúsið. Lögreglumenn skutu táragasi og beittu háþrýstivatnsbyssum á mótmælendurna. Þeir máttu þó ekki við margnum og hörfuðu inn í þinghúsið, að sögn AP-fréttastofunnar.

Þegar mótmælendur reyndu að komast inn í þinghúsið sjálft hófu lögreglumenn skothríð. Átta manns létust af sárum sínum á tveimur sjúkrahúsum en tugir til viðbótar eru sárir.

Stjórnvöld eru talin beita samfélagsmiðlabanninu til þess að ritskoða og refsa stjórnarandstæðingum sem gagnrýna þau á netinu.

Nokkur samfélagsmiðlafyrirtæki hafa gengist undir kvaðir nepalskra stjórnvalda um að þau skrái sig sérstaklega í landinu, þar á meðal kínverski miðillinn Tiktok. Hann var bannaður um tíma á þeim forsendum að hann spillti fyrir samlyndi í samfélaginu og væri vettvangur fyrir dreifingu á ósóma. Banninu var aflétt eftir að stjórnendur Tiktok lofuðu að fylgja landlögum í Nepal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×