Innlent

Gekk fram á dauða seli: „Svona á enginn að gera“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Dauður selur rétt utanvert við Hrófberg. Hann var skotinn í höfuðið.
Dauður selur rétt utanvert við Hrófberg. Hann var skotinn í höfuðið. Jón Halldórsson

Þrír selir voru skotnir til bana í Steingrímsfirði á Vestfjörðum nýlega. Hólmvíkingur gekk fram á selina í fjörunni. Selveiði hefur verið bönnuð á Íslandi frá árinu 2019.

Jón Halldórsson landpóstur og ljósmyndari, sem búsettur er á Hólmavík, gekk fram á selina við Hrófberg og Stakkanes í gær og í fyrra. Hann var í fimmtíu ár búsettur við Hrófberg og þekkir vel til þar.

„Svona á enginn að gera. Það er bara þannig,“ segir Jón um seladrápið. Með reglugerð árið 2019 var sett blátt bann við selveiðum á Íslandi.

Selirnir sem voru skotnir voru þrír en Jón náði myndum af tveimur þeirra.

„Svona hef ég ekki séð í áratugi,“ segir Jón sem hefur ýmsa fjöruna sopið.

Hann telur líklegast að um óvana menn sé að ræða sem geri sér ekki grein fyrir því að selir séu friðaðir. Þeir hafi verið með skotvopn sem þeir hafi verið nokkuð öruggir með að hitta af um 200 metra færi.

„Ef að lögreglan myndi gera eitthvað þá myndu þessir meintu skotmenn verða kærðir,“ segir Jón. Hann viðurkennir að rannsókn á slíku máli gæti reynst erfið.

Dauður selur rétt fyrir norðan Stakkanes sem dreginn hefur verið upp í grjótgarðinn. Jón Halldórsson

Honum virðist sem reynt hafi verið að færa annan selinn til í fjörunni. Það virðist ekki hafa gengið vel.

„Þetta er dýr sem eru hundrað kíló eða meira. Þannig að það er ekki hlaupið þessu.“

Jón hafði ekki tilkynnt seladrápin til lögreglu.

Nærmynd af selnum sem liggur dauður við Hrófberg.Jón Halldórsson

Allar selveiðar eru óheimilar á íslensku forráðasvæði hvort sem er í sjó, ám og vötnum nema að fengnu sérstöku leyfi frá Fiskistofu til selveiða til eigin nytja. Öll sala og markaðsfærsla á íslenskum sel og selaafurðum er bönnuð.

Reglugerð um bann við selveiðum.


Lumar þú á frétt? Sendu okkur fréttaskot á visir.is/frettaskot. Fullum trúnaði er heitið auk þess sem lesendur geta sent nafnlausar ábendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×