Erlent

Sjálft lýð­ræðið undir er Moldóvar ganga til kosninga

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Það gæti brugðið til beggja vona.
Það gæti brugðið til beggja vona. AP

Moldóvar ganga til þingkosninga í dag og að sögn sitjandi forseta er framtíð lýðræðis í landinu undir. Skoðanakannanir gefa til kynna að stjórn Evrópusinna og standi hnífjafnt en stjórnarandstaðan hefur verið sökuð um að þiggja tugi milljarða króna af Rússum.

Mikið hefur gustað um stjórnarandstöðuna í aðdraganda kosninganna sem samanstendur af bandalagi kommúnista og sósíalista og Sigurflokks Ilan Șor, auðjöfurs með sterk tengsl við Rússland. Honum hefur ítrekað verið meinað að bjóða sig fram en hann hefur verið dæmdur fyrir umfangsmikil fjársvik og að skipuleggja valdarán árið 2023.

Rússar ausi fjármagni á stjórnarandstöðuna

Vasile Ursachi, blaðamaður hjá moldóvska vikuritinu Ziarul de Gardă, segir ómögulegt að segja til um hverjar niðurstöðurnar verði en að ljóst sé að óstöðugleiki sé framundan.

„Það er mjög mikið í húfi vegna þess að Rússland hefur varið um þrjú hundruð milljón evrum í að kaupa atkvæði og í áróður á samfélagsmiðlum. Rússar vilja stýra Moldóvu og kynda undir óstöðugleika á svæðinu,“ segir Vasile.

Hann segir Rússlandssinnaða flokk Ilans Șor glæpasamtök en stefna hins síðarnefnda byggir á að Rússland innlimi Moldóvu.

„Mestöll stjórnarandstaðan er með sterk bönd við Rússland. Leiðtogar stjórnarandstöðuna hafa oft farið til Moskvu á fund rússneskra embættismanna. Svo hefur sumum flokkum verið meinað að bjóða fram vegna þess að lögregla og ákæruvaldið búa yfir upplýsingum um að meintar fjárhæðir sem þeir vörðu í aðdraganda kosninganna séu tengdar glæpasamtökum Ilans Șor. Hann er óligarki, býr í Moskvu og fer fyrir glæpasamtökum sem vilja þétta bönd Moldóvu við Rússland,“ segir Vasile.

Óeirðir sama hvað

Hversu jafnt er í skoðanakönnunum?

„Það er hnífjafnt að ég tel. Munurinn á fylginu er á bilinu eitt til tvö prósent. Ég held að enginn viti í raun hverjar niðurstöðurnar verði.“

„Ég held að það verði mikill óstöðugleiki í kjölfar kosninganna. Því við vitum að stjórnarandstaðan með tengingar í Rússlandi hafa skipulagt mótmæli og lögreglan hefur verið að rannsaka hópa í Moldóvu sem hafa verið þjálfaðir í Serbíu í að kynda undir óeirðir. Ef Evrópuflokkarnir vinna, þýðir það ekki að stöðugleiki náist á næstu vikum. Þetta eru mjög erfiðir tímar fyrir þjóðina,“ segir Vasile.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×