Viðskipti innlent

At­vinnu­leysi 5,3 prósent í ágúst

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Aukið atvinnuleysi mælist sérstaklega meðal ungs fólks.
Aukið atvinnuleysi mælist sérstaklega meðal ungs fólks. Vísir/Vilhelm

Atvinnuleysi meðal fólks á aldrinum 16 til 74 ára mældist 5,3 prósent í ágúst 2025. Fjöldi atvinnulausra var um 12.800, hlutfall starfandi 78,6 prósent sem samsvarar tæplega 228.900 einstaklingum. Atvinnuþátttaka var 83 prósent eða um 241.700 manns á vinnumarkaði.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagstofunni. Þar segir að samanborið við sama mánuð 2024 hafi atvinnuleysi aukist um 2,9 prósent, hlutfall starfandi um dróst saman um 4,9 prósentustig og atvinnuþátttaka dróst saman um 2,6 stig.

Segir þar að meira atvinnuleysi skýrist fyrst og fremst af auknu atvinnuleysi á meðal fólks á aldrinum 16 til 24 ára. Þó hafi það einnig aukist hjá eldri aldurshópum.

Eftir árstíðaleiðréttingu mælingarinnar fyrir ágúst 2025 mældist atvinnuleysi 5,7 prósent. Árstíðaleiðrétt hlutfall starfandi var 77,3 prósent og atvinnuþátttaka 82 prósent. Árstíðaleiðrétt atvinnuleysi jókst um 1,6 prósentustig á milli júlí og ágúst. Hlutfall starfandi á milli þessara mánaða dróst saman um 0,5 prósentustig en atvinnuþátttaka jókst um 0,9 prósentustig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×