Lífið

Sprakk út þegar 45 milljónir sáu skets um full­kominn eigin­mann

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Hrannar er mikill grínari og hefur náð að skapa úr því atvinnu í Stóra eplinu.
Hrannar er mikill grínari og hefur náð að skapa úr því atvinnu í Stóra eplinu.

Hrannar Björnsson uppgötvaði sem táningur að hægt væri að hafa lifibrauð af grín- og sketsagerð. Hann fór því í nám til New York eftir menntaskóla, lærði þar spunaleik og stofnaði sketsahóp með vinkonum sínum. Boltinn fór að rúlla þegar 45 milljónir manna horfðu á eitt myndbanda hans og er hópurinn nú í viðræðum um gerð á sjónvarpsþætti.

Hrannar er ekki sérlega þekkt nafn hérlendis en það er ekki ólíklegt að þeir lesendur Vísis sem eru duglegir á TikTok eða Instagram hafi rekist á myndbönd frá honum.

Blaðamaður heyrði hljóðið í Hrannari til að forvitnast út í það hvernig hann endaði í Stóra eplinu og hvað varð til þess að hann fór að gera sketsa á netinu.

Fór beint út eftir menntó

„Þegar ég var svona fjórtán-fimmtán ára komst ég að því að það væri hægt að vera grínisti og handritshöfundur og vinna sem sketsaleikari. Þó það sé hægt að gera það á Íslandi var ég mjög hrifinn af hugmyndinni um að fara til Bandaríkjanna og reyna fyrir mér,“ segir Hrannar.

Hrannar hefur verið í Bandaríkjunum í átta ár.

Eftir útskrift úr menntaskóla árið 2017 leitaði hugur Hrannars út fyrir landsteinana og hvöttu margir hann til að fara til Danmerkur eða Berlínar í leikstjórnarnám. Hann freistaðist en endaði á að fara vestur um haf.

„Ég sótti ekki einu sinni um háskóla á Íslandi, fór bara „all in“ og sótti um einhverja tíu til fimmtán skóla í New York og Los Angeles, aðallega í New York og svo valdi ég skólann sem gaf mér stærsta skólastyrkinn,“ segir hann.

„Skólar eru dýrir í Bandaríkjunum þannig það er ekkert rosalega gáfulegt að fara án þess að vera með einhvern styrk.

Hrannar fór fyrst í nám í bókmenntum og handritaskrifum í skólanum Sarah Lawrence College sem er í Yonkers í New York-fylki, rétt norðan við Bronx-hverfi. Samhliða því lærði hann spunaleik í Upright Citizens Brigade.

„Planið var allan tíma að fara í spunaleiklistarnámið þar utan skóla. Ég hugsaði að ég gæti farið í háskóla úti og reynt að koma mér af stað í gríninu samhliða því,“ segir hann.

Herbergisfélagar að grínhópi

Eftir grunnnámið fór Hrannar í meistaranám í ritlist, flutti inn í New York-borg og stofnaði grínhópinn Tiny Idea með tveimur vinkonum sínum úr skólanum.

Hrannar er í Tiny Idea með Evu Nemiroff og Ann Nelson.

„Við byrjuðum að gera vídjó á TikTok og Instagram í lok árs 2022 og þá byrjuðum við að fá einhverja athygli,“ segir Hrannar um upphafið að sketsagerðinni.

Þau bjuggu þrjú saman í íbúð og hófu að gera vikulega sketsa til að sýna að þeim væri alvara. Upp úr því gríni unnuð þau síðan sketsasýningu.

„Við erum með klukkutíma „live show“ sem við sýnum reglulega hérna í grínleikhúsum í New York. Við erum hægt og rólega að byggja upp hóp sem veit af okkur og þekkir okkur. Svo erum við að fara að sýna í Los Angeles í janúar,“ segir hann.

Fullkomni eiginmaðurinn vakti athygli

Eftir að hafa gert reglulega sketsa í tvö ár með Tiny Idea má segja að Hrannar hafi sprungið út á síðasta ári.

Það er stutt í grínið hjá Hrannari.

„Í fyrra fann ég fyrir kipp, ég byrjaði að pósta myndböndum á mínum eigin aðgangi á TikTok og póstaði myndbandi sem hét „The Perfect Husband“ og það horfðu 45 milljónir á það,“ segir hann.

Hann gerði nokkur fleiri myndbönd í þeirri seríu og fór allt á flug í kjölfarið.

„Sú sería sprakk eiginlega og það var þá sem ég byrjaði að fá mikil viðbrögð úti á götu og ég fann fyrir því að fólk byrjaði að taka eftir mér og okkur hjá Tiny Idea,“ segir hann.

Sjónvarpsþættir í vændum

Ekki nóg með að gera sketsa á samfélagsmiðlum heldur er Hrannar farinn að skrifa sjónvarpsþætti fyrir streymisveituna Dropout TV og er grínhópur hans í viðræðum um þætti á stöðinni.

„Þetta hét College Humor og ég held að fleiri þekki það merki því það var rosastórt á Youtube,“ segir Hrannar um Dropout. 

College Humor var mjög vinsæl síða upp úr aldamótum en fór í gegnum eigendabreytingar árið 2018 og var nafni þess þá breytt í Dropout TV.

„Ég er skrifa fyrir þættina Game Changer og Make Some Noise, sem eru tveir af þeirra aðalþáttum. Við þrjú í Tiny Idea erum síðan að þróa sjónvarpsþætti með framleiðslufyrirtæki akkúrat núna þar sem við þrjú leikum aðalhlutverkin,“ segir Hrannar.

Að sögn Hrannars er pælingin með þáttunum umfangsmeiri og vandaðri útgáfa af herbergisfélagasketsum þeirra.

„Þættirnir eru um okkur sem herbergisfélaga, við leikum herbergisfélaga í hverjum einasta skets, þó svo við búum ekki lengur saman. Við erum að þróa það núna og komin langt í því ferli þannig vonandi fer það í gang á næsta ári,“ segir hann.

„Svo bara því meira sem við gerum og því fleiri myndbönd sem við búum til því stærra verður þetta og ég er mjög spenntur fyrir því hvernig þetta er búið að þróast. Og spenntur hvað kemur næst, hvað sem það verður,“ segir hann að lokum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.