Handbolti

Tíu ís­lensk mörk í góðum sigri toppliðsins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Andrea var mögnuð í dag.
Andrea var mögnuð í dag. Sven Hoppe/Getty Images

Alls litu tíu íslensk mörk dagsins ljós þegar Blomberg-Lippe vann útisigur á Zwickau í efstu deild þýska kvennahandboltans. Þá voru fjölmargir aðrir Íslendingar í eldlínunni.

Andrea Jacobsen átti frábæran leik í sex marka sigri Blomberg-Lippe, lokatölur 29-35.Andrea var markahæst í liði Blomberg-Lippe með sex mörk, ofan á það gaf hún þrjár stoðsendingar. Díana Dögg Magnúsdóttir, sem lék áður með Zwickau, skoraði tvö mörk sem og Elín Rósa Magnúsdóttir.

Eftir sigur dagsins er Blomberg-Lippe með fullt hús stig á toppi þýsku deildarinnar þegar fjórar umferðir eru búnar.

Elín Klara Þorkelsdóttir átti þá frábæran leik þegar Sävehof vann tveggja marka sigur á Benfica ytra í síðari leik liðanna í undankeppni Evrópudeildarinnar, lokatölur 27-29. Elín Klara skoraði sjö mörk úr átta skotum í leiknum. Sænska liðið hafði unnið fyrri leik liðanna með eins marks mun og er því komið áfram í 3. umferð undankeppninnar.

Í efstu deild karla í Þýskalandi skoraði Blær Hinriksson eitt mark og lagði upp þrjú til viðbótar þegar lið hans Leipzig steinlá á heimavelli gegn Flensburg, lokatölur 24-42. Leipzig er í 17. sæti af 18 liðum með eitt stig eftir sex umferðir.

Í Danmörku skoraði Kristján Örn Kristjánsson tvö mörk þegar lið hans SAH mátti þola þriggja marka tap á heimavelli gegn Mors-Thy, lokatölur 28-31. Guðmundur Bragi Ástþórsson skoraði einnig tvö mörk þegar Ringsted skíttapaði fyrir Bjerringro-Silkeborg, lokatölur 23-32. Ísak Gústafsson skoraði eitt marka Ringsted í leiknum.

Að endingu skoraði Elvar Ásgeirsson þrjú mörk úr jafn mörgum skotum í fimm marka útisigri Ribe-Esbjerg á Nordsjælland, 27-32 lokatölur.

Kristján Örn og félagar í SH eru með 8 stig í 3. sæti þegar sex umferðir eru búnar. Ribe-Esbjerg er í 8. sæti með 5 stig á meðan Ringsted er í 12. sæti af 14 liðum með 3 stig.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Aldís Ásta og félagar í Skara duttu úr leik í Evrópudeildinni

Aldís Ásta Heimisdóttir, Lena Valdimarsdóttir og félagar í sænska liðinu Skara komust ekki áfram í Evrópudeild kvenna í handbolta í dag. Þær öttu kappi við Molde frá Noregi og duttu út eftir tvo leiki samanlagt 51-53. Leikið var í annarri umferð Evrópudeildar EHF.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×