Erlent

Tvö ár liðin frá á­rásum Hamas á Ísrael

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Þegar þessi mynd var tekin, þar sem ráðist var á fólk á Nova tónlistarhátíðinni, voru hundrað gíslar enn í haldi Hamas. Síðan hafa tugir verið látnir lausir en margir verið drepnir. Af þeim sem enn eru í haldi samtakanna er talið að um 20 séu á lífi en yfir 25 látnir.
Þegar þessi mynd var tekin, þar sem ráðist var á fólk á Nova tónlistarhátíðinni, voru hundrað gíslar enn í haldi Hamas. Síðan hafa tugir verið látnir lausir en margir verið drepnir. Af þeim sem enn eru í haldi samtakanna er talið að um 20 séu á lífi en yfir 25 látnir. AP/Maya Alleruzzo

Tvö ár eru liðin frá því að Hamas samtökin á Gasa gerðu árás á byggðir Ísraelsmanna og drápu um 1.200 manns og tóku 251 í gíslingu. Skömmu síðar hófu Ísraelar hernaðaraðgerðir á Gasa, sem enn standa yfir. 

Rúmlega 67 þúsund Palestínumenn verið drepnir í þeim aðgerðum. 

Minningarathafnir hafa verið skipulagðar víða um heim og Keir Starmer, forsætisráðherra Breta, fann sig knúinn til að biðla til fólks um að það taki ekki þátt í mótmælum til stuðnings Palestínu á þessum degi. 

Í grein sem hann ritar í dagblaðið Times í morgun segir hann að það væri „ó-breskt“ að mótmæla á þessum degi. Þrátt fyrir þetta eru mótmæli til stuðnings Palestínu skipulögð í Bretlandi í dag eins og aðra daga, segir BBC.

Á sama tíma sitja samninganefndir Hamas og Ísraela í Kaíró í Egyptalandi og eiga í óbeinum viðræðum um frið á svæðinu. Unnið er eftir friðaráætlun Donalds Trumps Bandaríkjaforseta og hófust fundarhöld síðdegis í gær.

Hamas eru sagðir hafa fallist á nokkur atriði í áætluninni en önnur munu vera til umræðu á fundunum. 

Trump forseti sagðist á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í gærkvöldi vera bjartsýnn á framhaldið.

„Við eigum góðan möguleika á því að ná fram samningi. Og það verður varanlegur samningur; við viljum frið,“ sagði forsetinn. Hann sagði Hamas hafa fallist á mikilvæg atriði samningsins en hann hafði áður hótað enn frekari blóðsúthellingum ef samtökin gæfu sig ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×