Sport

Vilja vopna­hlé út um allan heim á meðan Ólympíu­leikarnir standa yfir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antonio Tajani varaforsætisráðherra Ítala vill vopnahlé á meðan á Vetrarólympíuleikunum á Ítalíu stendur.
Antonio Tajani varaforsætisráðherra Ítala vill vopnahlé á meðan á Vetrarólympíuleikunum á Ítalíu stendur. Getty/ Simona Granati

Ítalir halda Vetrarólympíuleikana í ítölsku ölpunum í byrjun næsta árs og þeir vilja nú setja pressu á þjóðir heims að nýta sér þennan heimsviðburð til að stilla til friðar út um allan heim.

Antonio Tajani varaforsætisráðherra Ítala vill þannig fá í gegn alþjóðlegt friðarsamkomulag meðan á Vetrarólympíuleikunum á Ítalíu stendur.

Vetrarólympíuleikarnir, þeir 25. í röðinni, fara fram í Milanó og Cortina d'Ampezzo frá 6. til 22. febrúar 2026.

„Við verðum að vera boðberar friðarins,“ segir Tajani en fréttastofa Reuters segir frá.

„Við leggjum fram tillögu um ólympíuvopnahlé fyrir öll stríð, þar á meðal í Úkraínu og í Miðausturlöndum,“ útskýrir hann nánar.

Það geisa stríð út um allan heim og mörg þeirra hafa verið lengi í gangi og mjög illa hefur gengið að enda þau.

Rússar réðust inn í Úkraínu árið 2022 og vegna þessa mega þeir ekki keppa undir merkjum þjóðar sinnar á þessum Ólympíuleikum ekki frekar en í París í fyrra. Hvít-Rússar eru einnig í banni en íþróttafólk frá þessum löndum getur sótt um að keppa undir hlutlausum fána.

Þetta er í fjórða sinn sem Ítalir halda Ólympíuleika og í þriðja sinn sem þeir hýsa Vetrarólympíuleikana. Vetrarleikarnir fóru einnig fram í Cortina d'Ampezzo árið 1956 og í Torinó árið 2006 auk þess að Sumarleikarnir voru haldnir í Róm 1960.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×