Fótbolti

„Ætti að bera meiri virðingu fyrir peningunum sem hann þénar“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luigi De Siervo, forstjóri Serie A, hefur svarað franska landsliðsmanninum.
Luigi De Siervo, forstjóri Serie A, hefur svarað franska landsliðsmanninum. Getty/Domenico Cippitelli

Franski landsliðsmaðurinn Adrien Rabiot er að undirbúa sig fyrir leiki á móti Aserbaídsjan og Íslandi í undankeppni en notaði tækifærið til að gagnrýna harðlega þá ákvörðun Knattspyrnusambands Evrópu að leyfa leik í ítölsku deildinni að fara fram í Ástralíu í febrúar.

Þar mætast AC Milan og Como en Rabiot er leikmaður AC Milan. Franski miðjumaðurinn lýsti því sem „algjörri geðveiki“ að fljúga í tuttugu klukkustundir hvora leið fyrir leikinn í Perth, sem er á tímabelti sex klukkustundum á undan Ítalíu. Þetta eiga leikmenn ítölsku liðanna að gera í mikilvægum mánuði á tímabilinu.

Luigi De Siervo, forstjóri Serie A, hefur nú svarað Rabiot. Hann gaf það í skyn að Rabiot ætti ekki að gleyma því að honum er borgað fyrir að sinna hlutverki, sem er að spila fótbolta.

De Siervo bætti því síðan við að NFL, NBA, Tour de France og Giro d'Italia fari reglulega til útlanda: „Þetta er gert til að styrkja vöruna, ekki veikja hana,“ sagði De Siervo.

Á mánudaginn ákvað UEFA einnig með semingi að leyfa Barcelona að spila deildarleik í La Liga í Miami í desember.

„Þetta snýst allt um fjárhagslega samninga og að veita deildinni sýnileika, sem er sett ofar okkur [leikmönnunum],“ sagði Rabiot við franska dagblaðið Le Figaro. „Það er mikið talað um leikjadagskrá og velferð leikmanna, en þetta virðist allt vera mjög fáránlegt. Það er klikkun að ferðast svona langt fyrir leik milli tveggja ítalskra liða í Ástralíu. Við verðum samt bara að aðlagast, eins og alltaf.“

„Rabiot ætti að bera meiri virðingu fyrir peningunum sem hann þénar og styðja betur það sem vinnuveitandi hans, AC Milan, hefur samþykkt og þrýst á um, að láta þennan leik fara fram erlendis,“ bætti De Siervo við í samtali við fjölmiðla á þingi Samtaka evrópskra knattspyrnufélaga (EFC) á miðvikudaginn.

„Toppleikmenn, sem fá greitt í samræmi við það vinnuálag sem þeir sinna, ættu að skilja betur en aðrir að þetta er fórn sem hægt er að færa.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×