Skoðun

Göngu­deild gigtar - með þér í liði!

Pétur Jónsson skrifar

Gigtarsjúkdómar eru margvíslegir og oft flóknir og geta herjað á fólk á öllum aldri, jafnt fullorðna sem börn. Þeir algengustu valda mestum einkennum frá stoðkerfi á meðan aðrir sjaldgæfari ráðast meira á húð og innri líffæri. Gigtarsjúkdómar hrjá um fimmtung landsmanna og geta haft víðtæk áhrif á daglegt líf, vinnugetu og lífsgæði. Snemmgreining og skilvirk meðferð geta skipt sköpum til að draga úr einkennum, hægja á framvindu sjúkdómsins og koma í veg fyrir varanlegar skemmdir.

Alþjóðlegi gigtardagurinn er haldinn hátíðlegur 12. október ár hvert og er kjörið tækifæri til að vekja athygli á mikilvægi þjónustu við gigtarsjúklinga. Greining og meðferð gigtarsjúkdóma fer fram hjá sérfræðingum í gigtarlækningum, bæði á Landspítala og á stofum sjálfstætt starfandi. Sem liður í að stytta biðtíma á göngudeild gigtar á Landspítala hefur undanfarið verið boðið upp á liðskimun, sem felur í sér stutta komu þar sem einblínt er á skoðun á liðum með og án ómtækis í leit að liðbólgum. Með þessu móti er reynt að nýta betur þá forvinnu sem heimilislæknar framkvæma í von um hraðari greiningu og meðferð.

Hjúkrunarfræðingar, sjúkraþjálfarar og iðjuþjálfar eru meðal annarra heilbrigðisstétta sem auk lækna vinna saman að því að styðja við einstaklinginn með markvissri meðferð og fræðslu. Einnig er vert að nefna Gigtarfélag Íslands, sem allt frá árinu 1976 hefur staðið vörð um hagsmuni gigtarsjúklinga en félagið sinnir öflugu fræðslu- og stuðningsstarfi, heldur námskeið, opna fræðslufundi og býður upp á jafningjastuðning í gegnum sjúklingahópa. Fjöldi og hæfni fagfólks skiptir sköpum fyrir gæði þjónustunnar og aðgengi að henni. Stöðugt er unnið að slíkri uppbyggingu.

Í tilefni alþjóðlega gigtardagsins 12. október skulum við standa saman um að auka vitund, bæta þjónustu og styðja þau sem þjást af gigt.

Höfundur er sérfræðingur í lyf- og gigtarlækningum á Landspítala.




Skoðun

Sjá meira


×