Fótbolti

Skoraði sigur­markið gegn Liverpool og svo tvö fyrir lands­liðið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Estevao Willian skoraði tvívegis í Suður-Kóreu.
Estevao Willian skoraði tvívegis í Suður-Kóreu. getty/Ricardo Nogueira

Síðustu dagar hafa verið góðir fyrir Brassann unga, Estevao Willian. Á laugardaginn skoraði hann sigurmark Chelsea gegn Liverpool og í dag skoraði hann tvö mörk fyrir brasilíska landsliðið.

Brasilía vann 0-5 sigur á Suður-Kóreu í vináttulandsleik í Seúl í dag. Estevao var í byrjunarliði Brasilíumanna og kom þeim á bragðið á 13. mínútu.

Rodrygo bætti öðru marki við á 41. mínútu og eftir tveggja mínútna leik í seinni hálfleik skoraði Estevao annað mark sitt og þriðja mark Brasilíu. Rodrygo og Vinícius Júnior bættu svo við mörkum áður en yfir lauk.

Brasilía tapaði fyrir Bólivíu, 1-0, í síðasta leik sínum í undankeppni HM 2026 en sýndi sparihliðarnar gegn Suður-Kóreu í dag. Carlo Ancelotti hefur stýrt brasilíska liðinu í fimm leikjum eftir að hann tók við því. Þrír þeirra hafa unnist, einn tapast og einn endað með jafntefli.

Eftir að hafa slegið í gegn með Palmeiras gekk Estevao í raðir Chelsea í sumar. Hann skoraði sitt fyrsta mark fyrir liðið þegar það vann Liverpool, 2-1, á Stamford Bridge í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn.

Estevao, sem er átján ára, hefur leikið átta leiki fyrir brasilíska landsliðið og skorað þrjú mörk.

Brasilíska liðið færir sig nú yfir til Japans og mætir þar heimamönnum í Tókýó á mánudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×