Neytendur

Mjög leiðin­legt mál en til­boðið hafi aldrei verið sam­þykkt

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Fjölbýlishúsið við Stekkjarberg 11a í Setberginu í Hafnarfirði fyrir miðju.
Fjölbýlishúsið við Stekkjarberg 11a í Setberginu í Hafnarfirði fyrir miðju.

Helgi Gíslason hjá Byggingafélaginu Landsbyggð segir að upplýsingagjöf til ekkju í Hafnarfirði í fasteignaviðskiptum hefði mátt vera betri. Eftir standi að seljandi hafi ekki verið búinn að samþykkja tilboð.

Hjónin Atli Þór Albertsson og Guðný Ósk Sigurgeirsdóttir sem reka fasteignasöluna Stofuna vöktu athygli á máli móður Guðnýjar sem taldi sig vera búna að fá samþykkt kauptilboð hjá fasteignasölunni Hraunhamri í íbúð í fjölbýlishúsi sem Byggingafélagið Landsbyggð byggði.

Þau röktu söguna í færslu á Facebook sem vakið hefur mikla athygli. Í grófum dráttum lýsa þau því að hafa samþykkt að greiða uppsett verð á íbúð í nýbyggingunni. Í framhaldinu hafi hún selt íbúð sína, látið fasteignasöluna vita sem hafi sagt að búið væri að selja öðrum íbúðina.

Helgi segir miður að Atli Þór og Guðný Ósk hafi ákveðið að reka málið á samfélagsmiðlum og að fjölmiðlar fjölluðu um það.

„Þessi ágæta kona er bara í langri keðju sem hefur tekið mjög langan tíma að selja. Hún var ekki að klárast og ég undirritaði ekki tilboðið við hana,“ segir Helgi.

Um er að ræða nýtt fjölbýlishús við Stekkjarberg í Hafnarfirði. Helgi segir málið í grunninn mjög einfalt. Hann hafi ekki viljað samþykkja tilboð í eignina.

„Þetta er ekki flókið. Það voru engin viðskipti í gangi. Tilboðinu var ekki tekið.“

Hann lítur svo á að Atli Þór og Guðný Ósk séu í atvinnurógri gegn Hraunhamri. Þau reki fasteignasölu og séu því í beinni samkeppni. Þessu hafna Atli og Guðný og segjast ekki selja fasteignir verktaka, meðal annars vegna starfshátta sem þau kunni ekki að meta.

Þau segja móður Guðnýjar hafa fengið skýr skilaboð um að tilboðið hennar, um uppsett verð, hafi verið samþykkt. Helgi segir að þau sem löggiltir fasteignaeigendur eigi að vita betur og hefðu átt að ganga á eftir því að seljandi samþykkti kauptilboðið skriflega.

„Við hefðum alveg getað verið með betri upplýsingagjöf,“ segir Helgi og hið sama gildi um fasteignasöluna Hraunhamar.

„Okkur þykir þetta mjög leiðinlegt, það er ekkert gaman að standa í svona.“

En eftir standi, að aldrei hafi verið skrifað undir samning.

Ekki hefur náðst í fulltrúa fasteignasölunnar Hraunhamars vegna málsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×