Handbolti

Átta frá Blæ dugðu ekki til fyrsta sigursins

Sindri Sverrisson skrifar
Arnar Freyr Arnarsson fagnaði sigri í uppgjöri tveggja Íslendingaliða í Þýskalandi í dag.
Arnar Freyr Arnarsson fagnaði sigri í uppgjöri tveggja Íslendingaliða í Þýskalandi í dag. EPA-EFE/Johan Nilsson

Arnar Freyr Arnarsson og félagar hans í Melsungen komust upp í 8. sæti þýsku 1. deildarinnar í handbolta í kvöld með stórsigri á botnliði Leipzig, 34-25, í Íslendingaslag.

Blær Hinriksson hefur stimplað sig vel inn í deildina á sinni fyrstu leiktíð í atvinnumennsku og hann var markahæstur hjá Leipzig í leiknum. Blær endaði með átta mörk og eina stoðsendingu en það dugði skammt því yfirburðir Melsungen voru miklir.

Heimamenn voru heilum níu mörkum yfir í hálfleik, 18-9, og var sigurinn aldrei í hættu í seinni hálfleiknum.

Arnar skoraði tvö mörk fyrir Melsungen sem nú er með níu stig eftir átta leiki og fór upp fyrir Göppingen. Leipzig er hins vegar enn aðeins með eitt stig og er eina liðið sem enn er án sigurs í deildinni.


Tengdar fréttir

Draumadeildin staðið undir væntingum

Handboltamanninn Blæ Hinriksson dreymdi lengi um að spila í þýsku úrvalsdeildinni. Sá draumur hefur nú ræst og hann segir að draumadeildin hafi staðið undir væntingum. Blær bíður þó óþreyjufullur eftir fyrsta sigrinum með Leipzig sem hefur farið illa af stað á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×