Skoðun

Um meint hlut­leysi Kína í Úkraínustríðinu

Erlingur Erlingsson skrifar

Ég heyrði viðtal á Morgunvaktinni á mánudaginn um Kína og hugsaði hvað kínverski sendiherrann væri orðinn ægilega sleipur í íslensku. Þetta reyndast þó ekki vera hann, heldur stundakennari í kínverskum fræðum sem færði hlustendum sína greiningu á Kína og hélt því blákalt fram að „þeirra afstaða gagnvart stríðinu í Úkraínu er algerlega að vera hlutlaus”.

Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Daniel Patrick Moynihan sagði víst einhvern tímann að „menn mega hafa eigin skoðanir, en þeir mega ekki hafa eigin staðreyndir”. Það á ágætlega við um þetta eflaust vel meinandi viðtal og sjónarmið viðmælandans, enda er engum vafa undirorpið að Kínverjar eru lykilbandamaður Rússa og hafa gert þeim kleift að reka ólöglegt árásarstríð sitt gegn Úkraínu svo lengi sem raun ber vitni. Því fer fjarri að Kínverjar séu hlutlausir.

Rússland og Kína höfðu um árabil átt náið efnahagslegt og hernaðarlegt samstarf þegar ríkin tilkynntu fáum dögum fyrir innrás Rússa í Úkraínu í febrúar 2022 að þau hefðu gert með sér „ótakmarkað samstarf”. Í þeirri yfirlýsingu tók Kína undir ákall Rússa um að stöðva bæri stækkun Atlantshafsbandalagsins og studdi kröfur þeirra um öryggistryggingar af hálfu Vesturlanda, sérstaklega varðandi Úkraínu. Enginn þarf að velkjast í vafa um að þetta samkomulag var hluti af undirbúningi innrásarinnar og með því styrkti Pútin bakland sitt pólitískt, en líka eins og við höfum séð efnahagslega og hernaðarlega. Leiðtogarnir áréttuðu síðan þetta samband daginn sem tvö ár voru liðin frá innrásinni 24. janúar 2024 - tímasetning sem var engin tilviljun.

Í kjölfar misheppnaðrar innrásar í Úkraínu hefur Rússland selt Kína og Indlandi olíu í miklu magni. Þetta hefur, umfram annað, gert þeim kleift að halda kostnaðarsömu stríði áfram þrátt fyrir slælegt gengi á vígvellinum. Kína flutti inn metmagn af rússneskri olíu í fyrra, alls 109 milljónir tonna, sem nam um fimmtungi af öllum orkuinnflutningi landsins. Rússland notar m.a. „Skuggaflota” sinn til þessara olíuflutninga til Kína.

Heildarviðskipti Kína og Rússlands jukust um meira en þriðjung á árinu 2022 þegar Rússland var beitt viðskiptaþvingunum af Vesturlöndum í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu. Viðskipti ríkjanna náðu síðan nýjum hæðum 2023 þegar þau jukust um rúmlega 32% og námu alls 240 milljörðum bandaríkjadala (244 milljarðar á síðasta ári). Þessi viðskipti fela einnig í sér sölu á kínverskum íhlutum í rússnesk vopn og annan búnað tengdan stríðsrekstrinum gegn Úkraínu. Þannig beita Kínversk fyrirtæki blekkingum til þess að leyna sölu á íhlutum í dróna eða annan rússneskan vopnabúnað, auk véla og verkfæra fyrir rússneska vopnaframleiðslu sem er Rússum lífsnauðsynlegur en ekki strangt til tekið „vopnasala”.

Leiðtogar Kína og Rússlands deila sýn á heimsmálin sem grundvallast á vilja til þess að viðhalda eigin einræðisstjórn og takmarka bandarísk áhrif sem hafa lengi verið þeim þyrnir í auga. Endurkjör Donald Trump hefur flækt þá myndi eilítið, en engu að síður er ljóst að Kína er áfram höfuðandstæðingur Bandaríkjanna og sú strategíska afstaða hefur lítið breyst frá því að Trump tók fyrst við embætti 2017. Viðleitni Trump til þess að kljúfa Rússland frá Kína sem hann virðist nú hafa gefið upp á bátinn var auk þess fyrirfram dæmd til þess að mistakast í ljósi þess hve náið samband Kína og Rússlands er orðið. Ekki má gleyma að Pútin og Xi hafa unnið náið saman að því að breyta alþjóðlegum leikreglum og arkitektúr alþjóðasamskipta sér í vil á undanförnum árum. Í því skyni hafa þeir hafa skapað og styrkt alþjóðlega ríkjahópai, s.s. BRICS og Shanghai Samstarfsstofnunina (SCO), sem mótvægi við G7, G20, og Sameinuðu Þjóðunum eftir atvikum. Kínverjar eru auk þess í óða önn að fylla í tómarúm innan kerfi SÞ sem skapast þar sem Bandaríki Trump draga sig til baka. Virðist þetta nú gerast í enn ríkari mæli en á fyrsta kjörtímabili Trump.

Í viðtalinu talaði fræðimaðurinn einnig um að það sé gagnlegt fyrir Kínverja að landamæradeilur séu ekki leystar með valdi. Ef við setjum langa sögu Kínverska Alþýðulýðveldisins sem stangast á við þetta út fyrir sviga, hernað gegn Víetnam, landamæradeilur við alla nágranna, landvinninga með valdi á Suður-Kínahafi og ógnanir og innrásarundirbúning gegn Tævan, þá hefur málflutningur Kínverja ekki verið á þennan veg þegar kemur að hernaði Rússa gegn Úkraínu. Þar má fara allt aftur til upphafs hernarðarins 2014, þegar Rússar hernámu Krímskaga ásamt hluta Donetsk- og Lúhanskhéraða og héldu í framhaldi staliníska „þjóðaratkvæðagreiðslu á Krím” í mars 2015 um innlimun í Rússland.

Tvær mikilvægar atkvæðagreiðslur Sameinuðu Þjóðanna fóru fram á þeim tíma. Daginn fyrir atkvæðagreiðsluna var kosið um ályktun þess efnia að niðurstöðum kosninganna skyldi hafnað vegna augljósra annmarka. Þar beitti Rússland neitunarvaldi, eftir að Kina hafði setið hjá eitt aðildarríkja ráðsins. Kínverski fastafulltrúinn vísaði í flókna þætti málsins í samtíma og sögulega og sagði að ályktunin myndi einungis flækja stöðuna. Þeir sem þekkja ekki vel til alþjóðlegrar diplómasíu sjá kannski ekki að hér var verið að veita Rússlandi skjól, en það var þó sannarlega raunin.

Undir lok mánaðarins greiddi Allsherjarþing SÞ síðan atkvæði um ályktun sem mælti gegn því að ríki viðurkenndu breytta stöðu Krím í alþjóðakerfinu - þ.e.a.s. viðurkenningu á yfirráðum Rússlands. Ályktunin var samþykkt með 100 atkvæðum, Rússland og 10 önnur ríki greiddu atkvæði gegn henni og Kína sat hjá og tók ekki afstöðu gegn því að þarna væri landamærum breytt með valdi.

Færa má rök fyrir því að utanríkisstefna Kína allt aftur til 1954 miði jafnan að því að erlend íhlutun sé ekki ásættanleg sbr. stefnu Kína um „fimm grundvallarsjónarmið friðsamlegrar sambúðar ríkja”. Það væri trúverðugt hvað Úkraínustríðið snertir ef Kína tæki ekki áþreifanlega afstöðu efnahagslega og hernaðarlega með Rússum samhliða því að sitja hjá í mikilvægum atkvæðagreiðslum og veita Rússum þannig diplómatískt skjól. En eins og fram kemur hér að ofan þá fer því fjarri, svo ekki sé talað um samskipti Kína við sín grannríki.

Þegar öllu er á botninn hvolft er ljóst að ef ekki nyti við stuðnings Kínverja þá hefði Pútin fyrir löngu þurft að binda enda á árásarstríð sitt með einum eða öðrum hætti. Hann hefði þurft að láta af skipulegum pyntingum, loftárásum á borgaraleg skotmörk, barnsránum í þúsundatali, og hernaðaraðgerðum sem virðast ná flestum ef ekki öllum viðmiðum SÞ um þjóðarmorð. Það þarf mikið ímyndunarafl eða einbeittan brotavilja til að álykta að það geti talist hlutleysi af hálfu Kínverja.

Höfundur er gestafræðimaður við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×