Sport

„Það lang­besta sem við höfum sýnt í vetur“

Andri Már Eggertsson skrifar
Jóhann Þór Ólafsson þjálfari Grindvíkinga, var ánægður með sigurinn
Jóhann Þór Ólafsson þjálfari Grindvíkinga, var ánægður með sigurinn Vísir/Anton

Grindavík vann sjö stiga sigur gegn Álftanesi 70-79. Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, var afar ánægður með varnarleik liðsins sem hélt heimamönnum aðeins í 70 stigum.

„Varnarleikurinn okkar var góður allan leikinn. Við héldum þeim í 70 stigum á heimavelli og það var okkar framlag á varnarhelmingi vallarins sem skilaði þessu,“ sagði Jóhann Þór í viðtali eftir leik.

Álftanes var þremur stigum yfir í hálfleik 42-39. Varnarleik Grindavíkur í seinni hálfleik var frábær þar sem Álftnesingar gerðu aðeins 28 stig.

„Þeir voru að skora úr tilviljunarkenndum sóknum eftir sóknarfráköst sem datt í hendurnar á þeim og voru að setja skot sem við vildum að þeir myndu taka. Í seinni hálfleik fannst mér við ýta þeim í erfiðar aðgerðir. Ef við hefðum ekki látið kappið bera fegurðina ofurliði hefðum við sennilega bætt í forystuna. Þetta var virkilega góður leikur hjá mínu liði og ég er sáttur.“

Álftnesingar komu til baka í fjórða leikhluta sem gerðu síðustu mínúturnar æsispennandi en Jóhann var þó ekki orðinn smeykur um úrslitin.

„Við vorum að taka opin og góð skot sem fóru ekki ofan í og það er partur af leiknum. Ef ég á að vera ósáttur með eitthvað þá er það þessi kafli um miðjan þriðja leikhluta. Þetta var það langbesta sem við höfum sýnt í vetur.“

Jóhann Þór sagði að lokum að það stæði ekki til að skipta út Bandaríkjamanninum, Khalil Shabazz, sem gerði 18 stig í kvöld og gaf 4 stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×