Innlent

Ungt fólk í bílnum og annað al­var­lega slasað

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Fólkið var sent með þyrlu Landhelgisgæslunnar til Reykjavíkur.
Fólkið var sent með þyrlu Landhelgisgæslunnar til Reykjavíkur. Landhelgisgæslan

Rannsókn alvarlegs umferðarslyss sem varð á hringveginum austan við Kirkjubæjarklaustur í gær stendur enn yfir og fólkið sem var í bílnum sem valt út af veginum er enn á sjúkrahúsi eftir því sem lögreglan á Suðurlandi kemst næst, og er annað þeirra talsvert mikið slasað.

Alvarlegt umferðarslys varð á Suðurlandsvegi skammt vestan Lómagnúps snemma í gærmorgun þegar bifreið skipuð ökumanni og einum farþega hafnaði utanvegar. Þorsteinn M. Kristinsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, staðfestir í samtali við fréttastofu að um sé að ræða ungt fólk sem var statt hér á landi á ferðalagi og hefur verið haft samband við borgaraþjónustu heimalands fólksins.

Sjá einnig: Alvarlegt umferðarslys austan við Klaustur

„Fólkið er enn á sjúkrahúsi, að því sem ég best veit, og annar aðilinn talsvert slasaður, alvarlega slasaður,“ segir Þorsteinn. „Þetta er ungt fólk.“

Orsök slyssins liggja ekki fyrir að svo stöddu en það er til rannsóknar hjá lögreglu og rannsóknarnefnd samgönguslysa.

Lögregla, sjúkraflutningar, þyrla Landhelgisgæslunnar, slökkvilið og björgunarsveit voru boðuð á vettvang slyssins í gær, ásamt rannsóknarnefnd samgönguslysa. Ökumaður og farþegi voru flutt með þyrlu Landhelgisgæslunnar til aðhlynningar í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×