Skoðun

Ekki mamman í hópnum - leið­toginn í hópnum

Katrín Ásta Sigurjónsdóttir skrifar

Það er skrýtið að hugsa til þess að það sem kallað var „frekja“ í æsku, kallast „leiðtogahæfni“ í dag. Þegar ég var lítil stelpa heyrði ég oft að ég væri frekja, stjórnsöm og „bossy“. Ég var alltaf að ráðskast. „Þú átt að vera þessi dúkka og ég er þessi.“ Það er nú kannski bara eðlilegt fyrir leikskólabarn, er það ekki?

Í grunnskóla fann ég að ég átti að bæla þetta niður. Ekki taka pláss. Ég mátti sjá um atriði fyrir samsönginn en ekki gera samt of mikið, eða það var allavega upplifunin. Helst ekki segja mína skoðun og ef ég þurfti að spyrja spurninga þá átti ég ekki hafa þær of langar.

Mér leið eins og ég mætti ekki vera ég sjálf. Ég átti að passa í hópinn, en ég gerði það samt ekkert. Ég bældi sjálfa mig meira og meira niður, þó svo að litla stelpan í mér reyndi sífellt að brjótast út.

Í seinni tíð hef ég talað við konur með svipaða upplifun. Við hlæjum að því hvernig hópaverkefnin í skólunum enduðu oft á okkur. Afsökunin „þú ert svo góð í þessu“ virðist hafa virkað á okkur allar. En góðar í hverju? Var það skipulagið á verkefninu, glærurnar, kynningin sjálf, eða bara allt af þessu? Við lærðum ekki sem börn að setja öðrum mörk í hópaverkefnunum svo hvernig áttum við að vita að við ættum ekki að sætta okkur við þetta?

Síðan á eldri árum var ég oft kölluð mamman í hópnum. Þessi sem passaði upp á að dagskráin gengi upp og að allir væru með og kæmust síðan öruggir heim af djamminu.

En ef maður rýnir nánar í þetta, þá sé ég ekki betur en að mömmur í þessum skilningi séu leiðtogar. Manneskjan sem passar upp á að hlutirnir gangi upp.

Það var nefnilega ekki fyrr en nýlega sem að allir þessir eiginlegar sem ég átti að bæla, voru dregnir upp á yfirborðið og þeim fagnað. Ég var ekki stjórnsöm, ég hafði frumkvæði. Ég var ekki frekja, ég hafði sterkar skoðanir. Ég var ekki bossy, ég var leiðtogi.

Það skiptir svo miklu máli að við segjum stelpum hvað þær eru flottar og nota ekki orð yfir þær sem hafa gríðarlega mótandi áhrifa á þeirra sjálfsmynd. Kennum þeim að það er í lagi að hafa sterkar skoðanir og að aðrir megi líka hafa skoðanir. Kennum þeim að rökræða, fara með ræður, styrkja sig til að verða kröftugu konurnar sem búa í þeim.

Ef við viljum sjá konur leiða með sjálfstrausti á vinnustöðum, í stjórnmálum og í samfélaginu, þá verðum við að byrja í leikskólanum, með stelpunum sem eru að skipuleggja dúkkuleiki og trúa því að þær séu „frekjur“. Þær eru framtíðar leiðtogarnir okkar.

Bælum ekki niður stelpur, byggjum þær upp, hvetjum þær til að taka pláss og verum samfélag þar sem þær mega vera þær sjálfar.

Höfundur er mamma og félagi í JCI (Junior Chamber International).




Skoðun

Sjá meira


×