Sport

Þurfti að hlaupa lengra en frá Reykja­vík til Þórs­hafnar til að vinna HM í bak­garði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Phil Gore setti heimsmet í sumar og varð heimsmeistari í morgunn.
Phil Gore setti heimsmet í sumar og varð heimsmeistari í morgunn. @phil.gore.ultrarunner

Ástralinn Phil Gore er nýr heimsmeistari í bakgarðshlaupum en hann tryggði sér titilinn í bakgarðinum hjá Lazarus Lake [Gary Cantrell] í Tennessee-fylki í Bandaríkjunum.

Gore tryggði sér titilinn með einmanalegum hring en hann var sá eini til að klára hring númer 114.

Það voru þrír sem voru eftir í hring 112 en Harvey Lewis náði ekki í mark áður en tíminn rann út. Þá voru bara þeir Gore og Belginn Ivo Steyaert eftir. Þeir kláruðu saman hring 113 og föðmuðust síðan. Steyaert hætti og Gore tryggði sér titilinn með því að klára hring númer 114.

Þetta er enn eitt afrekið hjá þessum bakgarðskóngi en í júní setti hann nýtt heimsmet með því að fara 119 hringi í Dead Cow Gully í Ástralíu. Þessir 114 hringir eru aftur á móti nýtt met í bakgarði Lazarus Lake, fæðingarstað þessarar íþróttar.

Gore hafði gengið í 114 klukkutíma eða í næstum því fimm sólarhringa. Hann hafði hlaupið alls 765 kílómetra í bakgarðinum hjá Laz í Bell Buckle sem jafngildir því að hlaupa frá Reykjavík suðurleiðina til Þórshafnar á Langanesi og eiga samt enn eftir að fara fjörutíu kílómetra.

Hinn 39 ára gamli Gore er slökkviliðsmaður og fjögurra barna faðir. Í lífi sínu utan keppna í bakgarði berst Phil við elda í Vestur-Ástralíu, starfsgrein sem krefst sömu rósemi og seiglu og hann sýnir í bakgarðinum. Á milli tólf tíma vakta og æfinga á fjörutíu gráðu heitum dögum lærði hann leyndarmálið sem gerir hann að þeim besta í greininni.

„Þú verður bara að taka þetta hring fyrir hring. Ég veit að ég get hlaupið einn hring og svo skulum við bara halda áfram að gera einn á fætur öðrum,“ sagði Phil Gore.

Þessi einfalda heimspeki, einn hringur í einu, hefur breytt honum í alþjóðlegt tákn um andlegt þrek og ró undir álagi. Hann kveikir innblástur í öllum þeim sem trúa því að líkaminn sé vissulega brothættur en að hugurinn geti alltaf komið þér lengra.

Á einu ári varð Phil Gore líka eini íþróttamaðurinn á jörðinni til að vinna alla helstu bakgarðsviðburðina á innan við einu ári. Þeir eru eftirtaldir.

- 119 hringir á Dead Cow Gully Backyard Ultra 2025 (setti heimsmet)

- 114 hringir á Heimsmeistaramóti einstaklinha 2025

- 81 hringur á Sydney Backyard Ultra 2025, ástralska meistaramótið

- 96 hringir á Heimsmeistaramóti liða (Ástralía) 2024




Fleiri fréttir

Sjá meira


×