Erlent

Slepptu kynferðisbrotamanni fyrir mis­tök

Samúel Karl Ólason skrifar
Hadush Gerberslasie Kebatu (41), er hælisleitandi frá Eþíópíu en hann var dæmdur fyrir kynferðisbrot, meðal annars gegn táningsstúlku.
Hadush Gerberslasie Kebatu (41), er hælisleitandi frá Eþíópíu en hann var dæmdur fyrir kynferðisbrot, meðal annars gegn táningsstúlku. Lögreglan í Essex

Lögreglan í Bretlandi hóf í dag umfangsmikla leit að kynferðisbrotamanni sem sleppt var úr haldi fyrir mistök. Umfangsmikil mótmæli hafa farið fram í Englandi vegna afbrota mannsins.

Hadush Gerberslasie Kebatu (41), hælisleitandi frá Eþíópíu, var dæmdur í síðasta mánuði fyrir kynferðisbrot, tilraun til kynferðisbrots og áreiti í bænum Epping.

Hann var sakaður um að reyna að kyssa fjórtán ára stúlku í sumar, setja hönd á læri hennar og segja við hana og vinkonu hennar að vildi eignast börn með þeim. Þá bauð hann þeim með sér upp á hótel. Þetta var um viku eftir að hann kom fyrst til Englands.

Hann var einnig dæmdur fyrir að káfa á konu og reyna að kyssa hana þegar hún bauðst til að hjálpa honum við að gera ferilskrá. Það var sú kona sem hringdi svo á lögregluna þegar hún sá Kebatu tala aftur við sömu táningsstúlku, degi eftir að hann reyndi að kyssa stúlkuna og sama dag og hann hafði reynt að kyssa konuna.

Hann var dæmdur í tólf mánaða fangelsi en áður voru haldin fjölmörg mótmæli í Epping vegna málsins yfir margra vikna skeið, samkvæmt frétt Sky News.

Heimildarmenn Sky segja að til hafi staðið að flytja Kebatu í varðhald sem ætlað er hælisleitendum og í kjölfarið vísa honum úr lendi. Þess í stað hafi honum þó verið sleppt úr haldi fyrir mistök.

BBC segir að David Lammy, dómsmálaráðherra sé æfur vegna mistakanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×