Innlent

Út­spil bankans sýni að dómurinn auki sam­keppni

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, ræddi um breytingar á lánaframboði Landsbankans í kvöldfréttum Sýnar.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, ræddi um breytingar á lánaframboði Landsbankans í kvöldfréttum Sýnar. Sýn

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir að breytingar á lánaframboði Landsbankans séu áhugaverðar, og hægt sé að líta á þær bæði jákvæðum og neikvæðum augum. Annars vegar minnki framboð af verðtryggðum lánum og stýrivextir fari í kjölfarið að bíta meira, en hins vegar séu komin skilyrði fyrir mikilli lækkun stýrivaxta. Vaxtadómurinn komi til með að auka samkeppni og skýrleika fyrir neytendur.

Aðeins fyrstu kaupendur geta fengið verðtryggt íbúðalán hjá Landsbankanum og breytilegir vextir bera nú fast álag ofan á stýrivexti Seðlabankans. Bankinn tilkynnti í dag um þessar breytingar á lánaframboði í kjölfar dóms Hæstaréttar í vaxtamálinu svokallaða. Breytingarnar hafa ekki áhrif á lán þeirra sem þegar eru með íbúðalán hjá bankanum.

Verðtryggð lán til fyrstu kaupenda verða nú aðeins veitt til tuttugu ára og með föstum vöxtum en lánin hafa lengi verið veitt til fjörutíu ára. Enn á eftir að koma í ljós hvort aðrir lánveitendur fari sambærilega leið, en slíkt myndi draga stórkostlega úr framboði á verðtryggðum lánum.

Viðbrögð við öðru en dóminum

Breki Karlsson segir að ákvörðun Landsbankans sé áhugaverð. Bankinn hafi lokað fyrir lánveitingar fyrir tíu dögum, hann fagni því að fólk geti farið að fá aftur lán.

Dómurinn sem féll í vaxtamálinu svokallaða á dögunum hafi hins vegar ekki snúið að verðtryggðum lánum, og þessi ákvörðun Landsbankans séu því viðbrögð við einhverju öðru en honum.

„Það eiga enn fjögur mál eftir að fara fyrir hæstarétt, og þar á meðal mál sem varða lán með verðtryggðum vöxtum.“

Nú er fólk að velta fyrir sér heima, er ég að lesa góðar fréttir eða slæmar fréttir?

„Það er hægt að líta á þetta með tvennum hætti. Annars vegar er verið að minnka framboð af verðtryggðum lánum, og það þýðir þar með að lán, stýrivextir Seðlabankans fara að bíta miklu meira á almenning.“

„En eins og Lilja bankastjóri sagði í dag, þá eru komin skilyrði fyrir miklum lækkunum á stýrivöxtum Seðlabankans.“

Íslendingar verði að gera þá kröfu að veitt séu lán með svipuðum vöxtum og í nágrannalöndunum. Í Danmörku sé boðið upp á lán með þrjú prósent vöxtum og í Færeyjum séu þau í kringum fjögur prósent.

Breki segir að dómurinn muni koma til með að auka samkeppni á lánamarkaði og skýrleika fyrir neytendur.

„Nú geta neytendur valið, nú sjáum við hvað vextirnir eru og munu verða í framtíðinni. Ef við trúum því að það geti ríkt samkeppni á Íslandi, þá munu bankarnir keppast um í verði.“

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum ofar í fréttinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×