Handbolti

Gísli bjó til meira en þriðjung markanna

Sindri Sverrisson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson átti sjö stoðsendingar í dag.
Gísli Þorgeir Kristjánsson átti sjö stoðsendingar í dag. Getty/Ruben De La Rosa

Íslendingaliðið Magdeburg er áfram á skriði í þýsku 1. deildinni í handbolta, enn taplaust, og vann í dag 24-22 útisigur gegn Hannover-Burgdorf.

Staðan í hálfleik var aðeins 8-8 en Madgeburg virtist svo ætla að stinga af og komst í 20-15. Þá skoruðu heimamenn hins vegar fimm mörk í röð og náðu að jafna metin þegar tæpar sjö mínútur voru eftir.

Gestirnir voru hins vegar sterkari á lokakaflanum og unnu tveggja marka sigur.

Enginn skoraði meira en fjögur mörk fyrir Magdeburg í dag. Gísli Þorgeir Kristjánsson átti hins vegar langflestar stoðsendingar, eða sjö, og skoraði tvö mörk. 

Ómar Ingi Magnússon skoraði einnig tvö mörk og átti þrjár stoðsendingar en Elvar Örn Jónsson, sem er jafnan mikilvægur í varnarleiknum, var ekki á meðal markaskorara í dag.

Magdeburg hefur unnið átta leiki og gert eitt jafntefli á leiktíðinni, og er á toppnum en missir væntanlega Flensburg stigi upp fyrir sig í kvöld, en mun þá eiga leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×