Viðskipti innlent

Hagnaður bankans 8,2 milljarðar á þriðja árs­fjórðungi

Atli Ísleifsson skrifar
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banki, segir að afkoma bankans á þriðja ársfjórðungi hafi verið góð og bankinn náð síðum helstu fjárhagsmarkmiðum.
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banki, segir að afkoma bankans á þriðja ársfjórðungi hafi verið góð og bankinn náð síðum helstu fjárhagsmarkmiðum. Vísir/Vilhelm

Hagnaður Arion banka á þriðja ársfjórðungi var 8,2 milljarðar króna samanborið við 7,9 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi síðasta árs. Arðsemi eiginfjár sem tilheyrir hluthöfum Arion banka var 16,0 prósent á fjórðungnum, samanborið við 16,1 prósent á sama tíma í fyrra.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í árshlutauppgjöri Arion banka sem birt var í gær.

Sé litið til fyrstu níu mánaða ársins er hagnaður bankans 24,4 milljarðar króna samanborið við 17,8 á fyrstu níu mánuðum ársins 2024.

Lykiltölur á þriðja ársfjórðungi 2025

  • Hagnaður sem tilheyrir hluthöfum Arion banka var 8,2 ma.kr. á fjórðungnum, samanborið við 7,9 ma.kr. á 3F 2024
  • Arðsemi eiginfjár sem tilheyrir hluthöfum Arion banka var 16,0%, samanborið við 16,1% á 3F 2024
  • Hagnaður á hlut var 5,95 krónur, samanborið við 5,62 krónur á 3F 2024
  • Vaxtamunur á vaxtaberandi eignir var 3,3%, samanborið við 3,1% á 3F 2024
  • Þóknanastarfsemin skilaði 4,0 mö.kr., samanborið við 3,9 ma.kr. á 3F 2024
  • Rekstur Varðar skilaði 0,7 ma.kr. hagnaði, samanborið við 1,7 ma.kr. á 3F 2024
  • Kjarnatekjur, þ.e. hreinar vaxta-, þóknana- og tryggingatekjur (án rekstrarkostnaðar tryggingastarfseminnar), jukust um 6,9% í samanburði við 3F 2024
  • Rekstrarkostnaður jókst um 2,9% í samanburði við 3F 2024
  • Virkt skatthlutfall var 26,3% á fjórðungnum
  • Heildarkostnaður sem hlutfall af kjarnatekjum var 36,3%, samanborið við 37,5% á 3F 2024
  • Kostnaðarhlutfall var 32,6%, í samanburði við 34,4% á 3F 2024
  • Efnahagsreikningur bankans stækkaði um 1,4% á fjórðungnum
  • Lán til viðskiptavina jukust um 29,2 ma.kr. eða 2,3% á fjórðungnum, einkum lán til fyrirtækja

Hópmálsókn Neytendasamtakanna

Í kjölfar dóms Hæstaréttar frá 14. október sl. sem varðar neytendalán sem bera breytilega vexti hefur Arion banki endurmetið mögulegt hámarkstjón sitt vegna mála sem hafa verið höfðuð gagnvart bankanum. Arion banki telur nú að mögulegt hámarkstjón vegna óverðtryggðra neytendalána gæti numið tæpum 500 m.kr. fyrir skatt ef niðurstaða Hæstaréttar yrði heimfærð á lán bankans. Að sama skapi gæti mögulegt hámarkstjón bankans vegna verðtryggðra neytendalána numið 4,5 ma.kr. fyrir skatt, en í þeim útreikningum er gert ráð fyrir að lægstu markaðsvextir útgefnir af Seðlabankanum verði lagðir til grundvallar. Bankinn hefur á þessum tímapunkti ekki fært varúðarniðurfærslur vegna þessa, sökum verulegrar óvissu um endanlega niðurstöðu dómstóla, en mun meta þörfina fyrir niðurfærslu eftir því sem málum vindur fram.

Lykiltölur fyrir fyrstu 9 mánuði ársins 2025

  • Hagnaður sem tilheyrir hluthöfum Arion banka var 24,4 ma.kr. á 9M 2025, samanborið við 17,8 ma.kr. á 9M 2024
  • Arðsemi eiginfjár var 16,0%, samanborið við 12,2% á 9M 2024
  • Hagnaður á hlut var 17,55 krónur, samanborið við 12,45 á 9M 2024
  • Hreinn vaxtamunur var 3,3%, samanborið við 3,1% á 9M 2024
  • Hreinar þóknanatekjur námu 13,1 ma.kr. á fyrstu 9 mánuðum ársins í samanburði við 11,2 ma.kr. á 9M 2024
  • Aðrar rekstrartekjur voru 4,7 ma.kr. sem skýrist að mestu af virðishækkun þróunareigna
  • Rekstur Varðar skilaði 0,9 ma.kr. hagnaði, samanborið við 2,0 mö.kr. á 9M 2024
  • Kjarnatekjur hækka um 13,9%, samanborið við 9M 2024
  • Rekstrarkostnaður hefur lækkað um 1,2%, samanborið við 9M 2024
  • Virkt skatthlutfall var hátt eða 28,8% og skýrist af óhagstæðri samsetningu tekna
  • Heildarkostnaður sem hlutfall af kjarnatekjum var 38,3%, samanborið við 43,8% á 9M 2024
  • Kostnaðarhlutfall var 32,8%, samanborið við 40,6% á 9M 2024
  • Efnahagsreikningur bankans hefur stækkað um 7,3% frá árslokum 2024
  • Arðgreiðsla og kaup eigin hlutabréfa námu samtals 19,1 ma.kr. á 9M 2025
  • Eiginfjárhlutfall bankans (CAR hlutfall) var 21,9% og hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 var 18,0% í lok september. Hlutföllin taka tillit til óendurskoðaðs hagnaðar fjórðungsins að teknu tilliti til væntrar arðgreiðslu, sem nemur 50% af hagnaði í samræmi við arðgreiðslustefnu bankans. Eiginfjárhlutfall samkvæmt reglum Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands var 21,5% í lok september og hlutfall eiginfjárþáttar 1 17,6%. Eiginfjárhlutfall og hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 eru vel umfram kröfur sem settar eru fram í lögum og af Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands.

Haft er eftir Benedikt Gíslasyni, bankastjóra Arion banka, að afkoma bankans á þriðja ársfjórðungi hafi verið góð og bankinn náð síðum helstu fjárhagsmarkmiðum.

„Þrátt fyrir hátt vaxtastig hefur verið góður gangur í hagkerfinu og ber starfsemi okkar þess merki. Á fjórðungnum var góður útlánavöxtur þegar kemur að fyrirtækjum en við sjáum merki þess að það er að hægja á. Sem fyrr felst mikill styrkur í fjölbreytni þeirrar þjónustu sem við bjóðum og skila allar viðskiptaeiningar Arion samstæðunnar góðri afkomu. Eiginfjár- og lausafjárstaða er áfram mjög góð.

Forviðræður Arion banka og Kviku banka við Samkeppniseftirlitið vegna samrunaáforma félaganna eru hafnar. Við gerum ráð fyrir að forviðræðurnar taki einhvern tíma en þær gefa okkur kost á að ræða ýmis álitamál við fulltrúa Samkeppniseftirlitsins og skiptast á upplýsingum áður en samruninn verður tilkynntur með formlegum hætti til eftirlitsins. Við höfum mikla trú á því að saman myndi Kvika og Arion öflugt fjármálafyrirtæki þar sem styrkleikar hvors um sig nýtast vel viðskiptavinum og hluthöfum til góða.

Nýfallinn vaxtadómur Hæstaréttar í máli gegn Íslandsbanka hefur eðlilega mikil áhrif á íbúðalánamarkaðinn. Dómurinn fjallaði um óverðtryggt íbúðalán með breytilega vexti og gefur nokkuð skýra forskrift varðandi það hvernig lánveitendur mega breyta vöxtum slíkra lána, reynist skilmálar að hluta ólögmætir. Almennt má segja að vaxtabreytingarskilmálar lána Arion banka séu frábrugðnir þeim skilmálum sem dómur Hæstaréttar varðaði. Bæði er í skilmálum Arion banka um að ræða tæmandi talningu þeirra þátta sem horft er til við breytingu vaxta, ólíkt því sem á við um skilmála Íslandsbanka, auk þess sem hver þáttur er afmarkaður frekar með stuttri útskýringu. Mál gegn Arion banka, sem snýr að vaxtabreytingarskilmálum bankans á verðtryggðu íbúðaláni, verður tekið fyrir í Hæstarétti 17. nóvember, en bæði héraðsdómur og Landsréttur hafa dæmt skilmálana lögmæta.

Dómur Hæstaréttar í máli Íslandsbanka hefur skapað aukna óvissu varðandi afleiðingar þess ef vaxtabreytingarskilmálar verðtryggðra lána verði metnir ólögmætir að hluta eða öllu leyti, m.a. þar sem vextir verðtryggðra lána fylgja almennt ekki stýrivöxtum.

Við leitum nú leiða til að bjóða verðtryggð íbúðalán því óvissan og biðstaðan er óheppileg fyrir marga viðskiptavini okkar. Að veita einstaklingum íbúðalán er hluti af kjarnastarfsemi okkar og við vonumst til að geta kynnt slík lán á næstu vikum sem yrðu þá í boði a.m.k. þar til niðurstaða Hæstaréttar varðandi lögmæti vaxtabreytingarákvæða verðtryggðra lána liggur fyrir,” segir Benedikt Gíslason.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×