Erlent

Sagðir vinna að nýju friðarsamkomulagi án Úkraínu og Evrópu

Samúel Karl Ólason skrifar
Steve Witkoff, sérstakur erindreki Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna.
Steve Witkoff, sérstakur erindreki Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna. AP/Rebecca Blackwell

Bandarískir og rússneskir erindrekar eru sagðir hafa unnið á laun að áætlun sem á að koma á friði í Úkraínu. Vinnan hefur þó verið alfarið unnin án aðkomu Úkraínumanna og ráðamanna í Evrópu. Áætlun þessi er sögð byggja á friðarætluninni sem kennd er við Trump og snýr að Gasaströndinni.

Áætlunin á einnig að byggja á fundi Donalds Trump og Vladimírs Pútín, forseta Bandaríkjanna og Rússlands, í Alaska fyrr á árinu. Talsmaður forseta Rússlands gaf þó til kynna í morgun að viðræðurnar væru ekki formlegar.

Samkvæmt frétt Axios hafa þeir Steve Witkoff, sérstakur erindreki Donalds Trump, og rússneski auðjöfurinn Kirill Dmitríev, sem hefur komið að friðarviðleitni varðandi Úkraínu, unnið að áætluninni. Hún er sögð snúa að friði í Úkraínu, öryggistryggingum, öryggi í Evrópu og framtíðarsamskiptum Bandaríkjanna við Rússland og Úkraínu.

Í samtali við Axios sagði Dmitríev að hann hefði verið þremur dögum með Witkoff og öðrum erindrekum Trumps í Miami í Bandaríkjunum í október og þá hefðu þeir unnið að áætluninni. Hann sagði hana taka mið af fundi Trumps og Pútíns í Alaska og hún ætti að tækla átökin í Úkraínu, hvernig ætti að endurbyggja samskipti Bandaríkjanna og Rússlands og henni væri einnig ætlað að tækla „öryggisáhyggjur“ Rússa.

Dmitríev sagði að áætlunin væri í raun mun umfangsmeiri en aðrar viðræður og sneru að því hvernig ætti að koma á varandi friði í Evrópu, ekki eingöngu í Úkraínu.

Í október var hætt við fyrirhugaðan fund Trumps og Pútíns í Búdapest en það voru Bandaríkjamenn sem hættu við fundinn eftir að Marco Rubio og Sergei Lavrov utanríkisráðherrar ríkjanna töluðu saman í síma. Þá var Rubio sagður hafa lagt til að Trump fundaði ekki með Pútín þar sem Rússar sýndu engan vilja til að gefa nokkuð af kröfum sínum í garð Úkraínu.

Lavrov sagði einnig að skilyrðislaust vopnahlé, eins og Trump hefur ítrekað kallað eftir, kæmi ekki til greina.

Sjá einnig: Ó­lík­legt að Trump og Pútín muni funda í bráð

Í viðtalinu við Axios vísaði Dmitríev einnig til þess að viðræðurnar hefðu átt sér stað samhliða aukinni velgengni Rússa á víglínunni í Úkraínu. Þar hafa Rússar náð árangri og eru líklegir til að ná borginni Pokrovsk, eftir að hafa reynt það í meira en eitt og hálft ár.

Til stendur að kynna áætlunina fyrir embættismönnum í Úkraínu og Evrópu á næstu dögum, samkvæmt Axios.

Dmitrí Peskóv, talsmaður Pútíns, sagði þó í morgun að Rússar ættu ekki í neinum viðræðum við Witkoff að svo stöddu. Þá mun hann hafa sagt að í raun hefði lítið gerst frá fundinum í Alaska.

Grunnástæðurnar margræddu

Ráðamenn í Rússlandi hafa ítrekað sakað ríki Evrópu og NATO um að bera ábyrgð á því að stríðið hafi byrjað, að stríðið standi enn yfir og um að tefja mögulegar friðarviðræður. Þá hafa Rússar ávallt lagt mikla áherslu á að taka þurfi á svokölluðum „grunnástæðum“ stríðsins eða öryggisáhyggjum Rússa.

Með þessu hafa Rússar meinað að stuðningur við Úkraínumenn framlengi eingöngu stríðið og þar með þjáningar Úkraínumanna, eins og það sé Evrópa sem sé að kvelja Úkraínumenn og þvinga þá til að berjast gegn innrás Rússa en ekki Pútín sjálfur.

Þegar kemur að „grunnástæðum“ átakanna hafa ráðamenn í Rússlandi áður vísað til þess að ríkjum Austur-Evrópu hafi verið hleypt inn í NATO.

Fyrir innrásina í Úkraínu kröfðst Rússar þess að þessum ríkjum Austur-Evrópu verði vísað úr NATO. Sú krafa var ítrekuð á fundi erindreka Rússlands og Bandaríkjanna í Sádi-Arabíu fyrr á þessu ári, samkvæmt Financial Times.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×