Erlent

Segir Rússa viljuga en Selenskí ekki

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þeir virðast hafa náð yfirhöndinni í innsta hring Trump sem vilja snúa bakinu við Úkraínu og Evrópu.
Þeir virðast hafa náð yfirhöndinni í innsta hring Trump sem vilja snúa bakinu við Úkraínu og Evrópu. Getty/Chip Somodevilla

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði við blaðamenn í gærkvöldi að Vólódimír Selenskí Úkraínuforseti væri ekki reiðubúinn til að skrifa undir friðartillögur Bandaríkjamanna.

„Það veldur mér dálitlum vonbrigðum að Selenskí forseti hefur ekki ennþá lesið tillögurnar,“ fullyrti Trump. „Fólkið hans elskar þær en hann hefur ekki gert það,“ bætti hann við.

Viðræður hafa staðið yfir milli fulltrúa Bandaríkjanna og Úkraínu síðustu daga, sem Selenskí hefur lýst sem „uppbyggilegum en ekki auðveldum“. Selenskí mun funda í dag með leiðtogum Bretlands, Þýskalands og Frakklands. 

Það er erfitt að átta sig á því nákvæmlega hvaða tillögur Trump er að vísa til. 

Á sama tíma og hann sagði Selenskí ekki reiðubúinn til að ganga til samninga, þá sagði hann Rússa viljuga til að komast að niðurstöðu. Rússar hafa hins vegar ekki viljað leggja blessun sína yfir neina útgáfu sem hefur verið til umræðu, ekki einu sinni þá upphaflegu, sem þótti mæta öllum þeirra helstu kröfum.

Keith Kellogg, sendifulltrúi Bandaríkjanna í málefnum Úkraínu, sagði á laugardag að viðræðurnar væru á lokametrunum. Enn ætti eftir að landa samkomulagi varðandi yfirráð yfir landsvæðum og yfirráð yfir Zaporizhzhia kjarnorkuverinu.

Kellogg þykir meðal þeirra manna vestanhafs sem hafa verið hvað hliðhollastir Úkraínumönnum en hann mun láta af störfum í janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×