Erlent

Þriðji KFC-morðinginn fundinn rúm­lega fjöru­tíu árum síðar

Jón Þór Stefánsson skrifar
Morðin eru kennd við skyndibitastaðinn Kentucky Fried Chicen.
Morðin eru kennd við skyndibitastaðinn Kentucky Fried Chicen.

Lögregluyfirvöld í Texas-ríki Bandaríkjanna telja sig hafa fundið þriðja og síðasta árásarmann hinna svokölluðu Kentucky Fried Chicen-morða rúmlega fjörutíu árum eftir að þau voru framin.

Verknaðurinn sem um ræðir var framinn þann 23. september 1983, rétt fyrir lokun KFC-skyndibitastaðar í borginni Kilgore í Texas. Inni á staðnum voru fimm manns, þar af þrír starfsmenn staðarins.

Árásarmennirnir, sem eru taldir hafa verið þrír talsins, frelsissviptu fimmenningana og myrtu með því að skjóta þau í hnakkann. Líkin fundust úti á túni skammt frá skyndibitastaðnum. Einu hinna látnu hafði jafnframt verið nauðgað.

Sonur þingmanns grunaður

Málið var óleyst í fjöldamörg ár þrátt fyrir að á þeim tíma hafi margir grunaðir verið handteknir. Um tíma var James Earl Mankins, sonur þáverandi fulltrúardeildarþingmannsins Jimmy Mankins, grunaður um verknaðinn og ákærður.

Mankins var tengdur við málið vegna fingurnaglar sem fannst á einu líkinu, en lífsýnarannsókn leiddi í ljós að nöglin væri ekki hans.

Fundu tvo tuttugu árum síðar og þann þriðja eftir fjörutíu

Árið 2005 tengdi önnur lífsýnarannsókn á blóði tvo menn Darnell Hartsfield og Romeo Pinkerton við málið. Báðir voru sakfelldir fyrir verknaðinn.

Og nú telur lögreglan í Texas sig hafa fundið þriðja morðingjann, Devan Riggs, með lífsýnarannsókn. Hann lést árið 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×