Sport

Fór grátandi upp á sjúkra­hús eftir fall stuttu fyrir ÓL

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Matilde Myhrvold fór úr axlarlið eftir fall í keppni og er væntanlega að fara að missa af Ólympíuleikunum.
Matilde Myhrvold fór úr axlarlið eftir fall í keppni og er væntanlega að fara að missa af Ólympíuleikunum. Getty/Federico Modica

Norska skíðakonan Mathilde Myhrvold var að hætta keppni í Tour de Ski-skíðagöngukeppninni um helgina. Öll meiðsli á þessum tímapunkti eru mikið áfall fyrir alla enda nokkrar vikur í Ólympíuleikana.

Myhrvold hafði ekki heppnina með sér í síðustu brekkunni því hún datt, lenti illa og meiddist illa á öxl. Seinna um kvöldið tilkynnti norska skíðasambandið að Myhrvold hefði farið úr axlarlið og að hún myndi því hætta keppni í Tour de Ski. „Hún var mjög, mjög kvalin og grét. Hún var með mikla verki í öxlinni. Það var leiðinlegt að sjá Mathilde svona,“ sagði Sjur Ole Svarstad, landsliðsþjálfari Noregs, við VG.

Fór úr axlarlið

Myhrvold var flutt á sjúkrahús til rannsóknar eftir fallið.„ Mathilde fór úr axlarlið í sprettgöngukeppni dagsins. Þetta var staðfest með röntgenmyndatöku á sjúkrahúsinu á staðnum. Öxlin hefur verið sett aftur í lið og er nú á sínum stað. Vegna þessara meiðsla er Tour de Ski því miður lokið hjá henni í ár,“ sagði Ove Feragen, læknir norska landsliðsins, í yfirlýsingu.

Fréttin frá norska ríkisútvarpinu.NRK Sport

Mathilde Myhrvold var mjög kvalin og grét eftir úrslitin. „Hún átti erfitt með að koma sér í burtu frá marksvæðinu. Þetta leit bara mjög óþægilega út,“ sagði Sjur Ole Svarstad við VG.

Hin sænska Johanna Hagström var á eftir Myhrvold þegar norska skíðakonan datt.

Svo liggur hún bara allt í einu

„Ég tek eftir því að hún hægir aðeins á sér í brekkunni. Ég velti fyrir mér hvort ég eigi að reyna að ná henni. En svo liggur hún bara allt í einu, rétt fyrir síðustu beygjuna. Ég skildi ekki alveg á þeirri stundu hvað gerðist. Svo þegar hún kom í mark skildi ég að eitthvað var ekki í lagi,“ sagði Johanna Hagström við Sportbladet.

Myhrvold er 27 ára gömul og keppti á síðustu Vetrarólympíuleikum í bæði 10 kílómetra göngu sem og í sprettgöngu.

„Ég grét smá í gær“

Hún ræddi við norska fjölmiðla í dag.

„Ég grét smá í gær. Sérstaklega þegar maður áttar sig á því hvað hefur gerst og að hlutirnir geti breyst svona hratt, þá var það mjög leiðinlegt. En í heildina litið eru þetta bara meiðsli, svo ég tók þessu bara vel þegar leið á kvöldið,“ sagði Myhrvold við NRK.

Hún vill ekki útiloka Ólympíuleikana alveg en viðurkennir að vonin sé ekki mikil.

Þetta getur orðið erfitt

„Ég veit ekki alveg hversu alvarlegt þetta er og hversu langan tíma þetta mun taka. En ég geri mér grein fyrir því að þetta getur orðið erfitt, því það voru nokkrar mikilvægar keppnir fram undan núna mjög fljótlega þar sem ég þurfti líka að sýna mig svolítið, því ég var engan veginn örugg með sæti á Ólympíuleikunum heldur,“ sagði Myhrvold en síðasti sólarhringurinn hefur verið mikill tilfinningarússibani.

„Fyrst var þetta bara mjög sárt, miklir verkir. Ég náði ekki að hugsa svo mikið fyrr en aðeins seinna, en þegar öxlin var komin í lið og verkirnir minnkuðu, þá líður mér betur,“ sagði Myhrvold.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×