Fótbolti

Gleymdi Ís­lendingurinn fékk loks að spila: „Ég er ekki vit­laus“

Sindri Sverrisson skrifar
Alfons Sampsted var í viðtali við samfélagsmiðla Birmingham City eftir jafnteflið í gærkvöld.
Alfons Sampsted var í viðtali við samfélagsmiðla Birmingham City eftir jafnteflið í gærkvöld. Skjáskot/Youtube

Alfons Sampsted fékk langþráð tækifæri í byrjunarliði enska knattspyrnufélagsins Birmingham í gærkvöld og þótti standa sig afar vel. Hann kveðst þó alltaf hafa verið meðvitaður um að staða sín hjá félaginu væri ekki góð.

Alfons og Willum Willumsson voru báðir í byrjunarliði Birmingham sem gerði 1-1 jafntefli við Southampton í ensku B-deildinni í gærkvöld. Þetta var 24. deildarleikur tímabilsins en um leið sá fyrsti hjá Alfons í byrjunarliði. Áður hafði hann komið við sögu í þremur leikjum sem varamaður og því afar lítið spilað á þessari leiktíð.

Það er því kannski skrýtið að staðarmiðillinn Birmingham Mail lýsi Alfons í fyrirsögn sem „gleymda manni“ Birmingham. Miðillinn segir að vegna forfalla hafi Chris Davies, stjóri Birmingham, ákveðið að kalla Alfons til í stöðu hægri bakvarðar og að þrátt fyrir lítið leikform hafi hann verið einn besti maður vallarins.

Myndu ekki versla ef ég væri framar í röðinni

Eins og miðillinn bendir á þá leit út fyrir það síðasta sumar að Alfons væri þá á förum frá félaginu en mögulega gæti leikurinn í gær orðið ákveðinn vendipunktur.

„Ég er ekki vitlaus. Ég veit hvernig fótboltinn virkar. Þegar leikmenn eru keyptir sem spila mína stöðu þá verður þetta erfitt,“ sagði Alfons eftir leik í gær, samkvæmt Birmingham Mail.

„Þeir hefðu ekki keypt leikmenn ef að ég væri framar í goggunarröðinni,“ sagði Alfons sem var einnig í viðtali við Youtube-rás Birmingham eins og sjá má á myndbandinu hér að neðan.

„Að því sögðu þá er ekkert grafið í stein í fótboltanum. Ef að maður stendur sig vel þá getur maður komist framar í röðinni og fengið fleiri mínútur á vellinum.

Ég hef ekki fengið margar mínútur en reyni að nýta þær sem best á vellinum. Það er ekki auðvelt að halda sér tilbúnum fyrir 90 mínútna leik sem er svona opinn, þar sem maður þarf að vera einbeittur og fullur af orku allan tímann. Þá kemur fagmennskan inn. Maður verður að halda áfram allri vinnunni og þá ræður maður við það að spila 90 mínútur þegar að því kemur,“ sagði Alfons.

Dómarinn viti af sínum mistökum

Hann átti sinn þátt í umdeildasta atviki leiksins, þegar Southampton jafnaði metin eftir að dómari leiksins hafði þvælst fyrir Tomoki Iwata, sem ætlaði að taka við sendingu frá Alfonsi.

„Þetta var löng sending og ég ætlaði bara að skalla niður á Tomoki svo við gætum spilað áfram þaðan. Dómarinn virðist hafa stigið fyrir Tomoki og komið í veg fyrir að hann næði boltanum. Boltinn fór svo til þeirra og þeir náðu skyndisókn og skoruðu. Ég held að dómarinn viti að þetta var rangt af honum. Hann var illa staðsettur en við gerum allir mistök og þetta hjálpaði öðru liðinu verulega,“ sagði Alfons.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×