Sport

Meira en fimm milljónir á dag fyrir að mæta ekki í vinnuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pete Carroll gengur af velli eftir síðasta leikinn sem þjálfari Las Vegas Raiders en þar fagnaði hann sigri á móti Kansas City Chiefs.
Pete Carroll gengur af velli eftir síðasta leikinn sem þjálfari Las Vegas Raiders en þar fagnaði hann sigri á móti Kansas City Chiefs. Getty/Ethan Miller

Þeir sem halda að það hafi verið dýrt fyrir Manchester United að reka hvern þjálfarann á fætur öðrum ættu að skoða aðeins reikningana hjá NFL-liðinu Las Vegas Raiders.

Forráðamenn Raiders ákváðu að reka hinn 74 ára gamla þjálfara sinn Pete Carroll eftir að tímabilinu lauk þar sem liðið var með versta árangurinn í deildinni.

Það þarf þó enginn að vorkenna Carroll enda fékk hann bestu starfslokagjöfina eða meira en milljón dollara, 164 milljónir króna, á mánuði næstu tvö árin.

Þrátt fyrir erfitt vonbrigðatímabil, þar sem Raiders enduðu með versta árangur deildarinnar, tryggir samningur Carrolls að bankareikningur hans heldur áfram að vaxa. Þessi lokagreiðsla er rúsínan í pylsuendanum á mögnuðu ferli Carrolls.

Eftir að hafa verið leystur undan skyldum sínum aðeins einu ári inn í þriggja ára, 45 milljóna dollara samning, eru Raiders að sögn ábyrgir fyrir þeim þrjátíu milljónum dollara sem eftir eru. Þeir skulda því Carroll enn þrjátíu milljónir dollara eða 3,8 milljarða króna.

Þegar maður skoðar betur tölurnar á bak við það að Raiders munu borga Pete Carroll fyrir að þjálfa ekki liðið næstu tvö árin, líta tölurnar út eins og lottóvinningur.

Hann fær 30,4 dollara á mínútu (3900 krónur), tæpa 44 þúsund dollara á dag (5,5 milljónir), rúmlega 306 þúsund dollara á viku (39 milljónir) og 1,3 milljónir dollara á mánuði (164 milljónir) næstu 24 mánuði.

Las Vegas Raiders hefur rekið hvern þjálfarann á fætur öðrum síðustu árin og alls þurft að borga fyrri þjálfurum samtals fimmtíu milljónir dollara, meira en 6,3 milljarða króna, fyrir að mæta ekki í vinnuna.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×