Handbolti

Viktor Gísli brattur: „Bara já­kvætt að það sé pressa“

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Viktor Gísli er klár og spenntur fyrir EM.
Viktor Gísli er klár og spenntur fyrir EM. vísir/vpe

„Stemningin er bara góð. Þetta kikkar alltaf inn er maður mætir á hótelið og tekur fyrstu æfinguna á staðnum,“ segir landsliðsmarkvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson af sinni alkunnu stóískri ró.

Viktor stóð í markinu fyrir þremur árum síðan er Ísland spilaði í þessum krúttlega bæ síðast. Þá var stemningin engu lík og hún verður það aftur núna.

Klippa: Viktor Gísli klár fyrir EM

„Við eigum geggjaðar minningar frá stuðningnum hérna síðast og vonumst til að fá hann aftur núna. Þetta er hálfgerður heimavöllur hjá okkur,“ segir Viktor brosmildur er hann rifjar upp lætin í Kristianstad Arena.

„Ég man ekki eftir að hafa lent í svona stemningu áður með landsliðinu. Þetta var einstakt.“

Fyrsti leikur Íslands á EM er á morgun. Andstæðingurinn er Ítalía sem hefur verið að hraðri uppleið í handboltaheiminum.

„Það gengur vel að undirbúa. Við fáum öðruvísi skot og tempó gegn þeim. Þeir eru óútreiknanlegri en margir og það getur verið erfitt fyrir markmenn. Það er stundum eins og þeir viti ekki sjálfir hvert þeir eru að skjóta enda í miklum contact. Þetta verður öðruvísi,“ segir markvörðurinn sterki sem átti frábært mót fyrir ári síðan. Hann segir að pressan hafi lítil áhrif á sig.

„Ég finn lítið fyrir henni. Mesta pressan kemur frá mér sjálfum. Ég hef verið undir pressu frá því ég var mjög ungur og finn lítið fyrir henni í dag.“

Gott að fólki sé ekki sama um okkur

Það er mikil bjartsýni fyrir góðu gengi íslenska liðsins. Sérfræðingar segja að leiðin sé greið í undanúrslitin og einhverjir spá Íslandi verðlaunum á mótinu.

„Það er mismunandi hvað menn heyra mikið af þessu. Ég hef ekki heyrt neitt. Þetta er eitthvað sem maður hefur heyrt síðustu ár samt. Það er gott að hafa pressuna á sér og það þýðir að fólki er ekki sama um okkur vill að okkur gangi vel. Þetta er bara jákvætt,“ segir Viktor Gísli en hvernig skynjar hann að hópurinn sé að glíma við pressuna?

„Við erum ekkert að pæla í neinu nema okkur. Pæla í að vera betri á hverjum degi. Ná hópnum saman og vinna í þessum litlu smáatriðum sem sem skipta svo litlu máli Við tölum ekki mikið um pressuna heldur erum við bara að pæla í okkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×